Fréttir

Staðan fyrir lokahringinn á Heimslistamótinu á Oddi
Ragnar Már Garðarsson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
laugardaginn 24. ágúst 2019 kl. 10:09

Staðan fyrir lokahringinn á Heimslistamótinu á Oddi

Fyrr í sumar settu Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar, Golfklúbbinn Oddur og Golfklúbbur Reykjavíkur á laggirnir svokölluð heimslistamót fyrir afrekskylfinga. 

Eitt mót fór fram í vor hjá GKG og er annað mót sumarsins í gangi hjá GO þessa helgina.

Mótin munu öll gefa stig á heimslista áhugamanna og er það stór tilgangur mótanna að leyfa afrekskylfingum að vinna sér inn fleiri stig á heimslistanum ásamt því að gefa þeim tækifæri á að keppa meira.

Eftir tvo hringi á Heimslistamóti helgarinnar eru þeir Ragnar Már Garðarsson og Aron Snær Júlíusson, báðir úr GKG, jafnir í forystu í karlaflokki. Aron leiddi eftir fyrsta hringinn þegar hann kom inn á þremur höggum undir pari en hann lék annan hringinn á þremur höggum yfir pari á meðan Ragnar hefur leikið báða hringina á 71 höggi.

Höggi á eftir þeim er svo Böðvar Bragi Pálsson á einu höggi yfir pari.


Aron á besta hring mótsins til þessa.

Í kvennaflokki er einungis einn keppandi en það er hún Bjarney Ósk Harðardóttir GR. Hún er samtals á 33 höggum yfir pari eftir hringina tvo.

Lokahringur mótsins fer fram í dag, laugardag. Hér er hægt að sjá stöðuna.

Mótin sumarsins:

1. Heimslistamót GKG, 17. - 18. maí
2. Heimslistamót GO, 23. - 24. ágúst
3. Heimslistamót GR, 13. - 15. september