Stykkishólmur: Skemmtilegur 9 holu völlur og tjaldsvæði við hliðina á
Öldungamót á Víkurvelli verður haldið 17. júní
„Í klúbbnum eru um 110 manns í það heila, mest heimamenn og nærsveitungar. Við vonumst eftir góðu sumri, bæði að það verði straumur af fólki og að veðrið verði gott, þetta snýst alltaf svolítið um það,“ sagði Eyþór Benediktsson, formaður Golfklúbbsins Mostra í Stykkishólmi, í viðtali við Skessuhorn.
Formaðurinn sagði að talsverður hópur væri af Hólmurum sem hafa flutt í burtu, búa til dæmis á höfuðborgarsvæðinu en halda tengingu við heimaslóðirnar og klúbbinn. „Það er mjög ánægjulegt. Hér í kring eru líka margir í sumarhúsum, sumir þeirra eru félagar í klúbbnum.“
Völlur GMS, Víkurvöllur, er 9 holu par 72 völlur, staðsettur rétt sunnan við tjaldsvæðið og Hótel Stykkishólm. Golfklúbburinn hefur undanfarin ár séð um rekstur tjaldsvæðisins fyrir Stykkishólmsbæ. Golfskáli klúbbsins er einmitt staðsettur á mörkum vallarins og tjaldsvæðisins. „Það hefur gengið ágætlega og gerir okkur kleift að vera með starfsfólk í fullu starfi og hafa skálann opinn. Öðruvísi gengi þetta ekki. Starfsmaður skálans þjónar þá tjaldsvæðinu líka,“ segir Eyþór.
Víkurvöll kól í fyrra á stöku stað þegar klaki lá yfir öllu en með mikilli vinnu gátu starfsmenn bjargað öllum flötum. Að sögn Eyþórs kom ekkert slíkt upp í ár. „Völlurinn kemur vel undan vetri í ár, þrátt fyrir að vorið hafi verið nokkuð kalt og það sem fór illa í fyrra virðist hafa lagast að fullu um sumarið. Það sér ekki á vellinum núna og allt útlit fyrir að hann verði fínn í sumar,“ segir hann. Aðspurður hvort þurr tíð hafi háð þeim segir hann svo ekki vera. „Hér er dálítið votlent, að minnsta kosti hluti svæðisins, þannig að það hefur alveg sloppið. Menn voru vissulega viðbúnir því að fara að vökva til að fyrirbyggja skemmdir en svo fór að rigna þannig að það bjargaðist alveg.“
Nokkuð hefðbundið mótahald framundan
„Við erum venjulega með innanfélagsmót, auk Snæfellsnesmótaraðarinnar, sem er mótaröð klúbbana á Nesinu. Svo spilum við á móti nágrönnum okkur í Grundarfirði á hverju vori og svo aftur að hausti. Það er liðakeppni með Ryder-fyrirkomulagi, sem sagt holukeppni og sá klúbbur sem hefur flesta vinninga eftir báðar umferðirnar fær bikarinn það árið. Þetta er tveggja daga mót og þrjár umferðir leiknar hvorn daginn. Þetta er mjög skemmtilegt mót og gerir mikið fyrir báða klúbbana sem hafa alltaf átt í góðu samstarfi,“ segir Eyþór. „Einnig verður hið hefðbundna Hótelmót, sem Hótel Stykkishólmur hefur styrkt. Það er tveggja daga paramót, venjulega haldið í lok sumars og heilmikið tilstand í kringum það. Leikið er föstudag og laugardag og svo endar þetta á kvöldverði á hótelinu að kvöldi laugardags. Nýjung sumarsins verður opið mót eldri kylfinga 17. júní. Við höfum ekki haldið það áður en það er vonandi komið til að vera,“ sagði Eyþór að lokum.
Völlurinn í Stykkishólmi er mjög skemmtilegur.