Prósjoppan
Prósjoppan

Fréttir

Thomas: Þetta var góð barátta
Justin Thomas.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 25. október 2020 kl. 10:16

Thomas: Þetta var góð barátta

Justin Thomas er efstur á Zozo meistaramótinu sem fer fram á PGA mótaröðinni í golfi. Thomas er á 19 höggum undir pari eftir þrjá hringi en hann lék þriðja hringinn á 5 höggum undir pari.

Fyrstu tvo hringi mótsins lék Thomas á 7 höggum undir pari en hann var ekki í sama formi á þriðja keppnisdeginum.

„Þetta var góð barátta, ég hélt mér vel inni í þessu,“ sagði Thomas eftir þriðja hringinn. „Ég spilaði klárlega ekki jafn vel og fyrstu tvo dagana og var ekki í mínu besta standi, en að spila svona hring á þessum velli er mjög stórt.

Maður getur bókstaflega fengið fugl á hverri einustu holu hérna, ef maður er að spila vel getur maður gengið á lagið.“

Spánverjinn Jon Rahm er í öðru sæti á 18 höggum undir pari en hann átti besta hring dagsins þegar hann kom inn á 9 höggum undir pari. Russel Henley spilaði einnig á 9 höggum undir pari en hann er í 15. sæti á 13 höggum undir pari.

Eftir þrjá hringi er orðið ljóst að Tiger Woods mun ekki verja titilinn en hann er á 3 höggum undir pari, 16 höggum á eftir Thomas. Woods lék þriðja hringinn á höggi undir pari og leikur með þeim Phil Mickelson og Adam Long á lokahringnum.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Staða efstu manna:

1. Justin Thomas, -19
2. Jon Rahm, -18
3. Lanto Griffin, -17
4. Sebastian Munoz, -16
4. Ryan Palmer, -16
4. Patrick Cantlay, -16