Þuríður og Helgi Dan klúbbmeistarar í Grindavík
Grindvíkingar héldu sitt meistaramót í síðustu viku, eins og venjulega aðeins seinna en flestir klúbbar halda sín meistaramót. Þuríður Halldórsdóttir og Helgi Dan Steinsson héldu titlinum frá því í fyrra og var ekki beint um spennu að ræða um hver myndi vinna.
Svona röðuðu þrír efstu sér:
Mfl. kvenna
Þuríður Halldórsdóttir, 321 högg
Hulda B. Kjærnested Baldursdóttir, 330 högg
Svanhvít Helga Hammer, 342 högg
Mfl. karla
Helgi Dan Steinsson, 275 högg
Hávarður Gunnarsson, 299 högg
Þorlákur G. Halldórsson, 301 högg
Þuríður vann meistaramótið í fyrsta sinn í fyrra og hélt titlinum örugglega núna. „Ég fór ekki með neinar væntingar í þetta mót, bjóst alls ekki við að vinna og ætlaði bara að spila mitt golf og hafa gaman. Ég er búin að spila golf síðan 2010, var áður caddy hjá vinkonu minni og hún hvatti mig til að byrja, ég ætlaði sko aldrei að prófa þetta! Ég ákvað svo að prófa, sló eitt högg og „the rest is history“ eins og maðurinn sagði. Ég hef nánast alltaf tekið þátt í meistaramótunum síðan þá, þegar ég byrjaði vorum við svo fáar svo það var bara einn kvennaflokkur en í dag er kvennastarfið í klúbbnum orðið mjög öflugt, það er frábært að sjá svona marga kvennaflokka núna. Ég spilaði mjög stöðugt golf alla dagana, fékk enga sprengju og jafnaði mitt besta skor á öðrum degi. Ég spilaði alla dagana undir minni forgjöf svo ég hlýt að sjá einhverja lækkun eftir þetta mót, ég var súper sátt við mína spilamennsku þessa fjóra daga,“ sagði Þuríður.
Helgi Dan hefur verið framkvæmda- og vallarstjóri í Grindavík síðan 2020. „Það var mjög mikil ánægja með mótið, það munaði litlu að við kæmum keppendum yfir 100 en það hefur verið stöðug fjölgun undanfarin ár, ég trúi ekki öðru en við förum í þriggja stafa töluna að ári. Mér fannst ánægjulegast að sjá skorið hjá kvenfólkinu, mikil bæting á milli ára hjá mörgum en fjölgunin kvenna í klúbbnum hefur verið stöðug undanfarin ár, sem er mjög jákvætt. Alltaf gaman að sjá bætingu hjá fólki en Pétur Ingi Bergvinsson, fór t.d. úr 54 í 17 í forgjöf, ég man ekki eftir að hafa séð aðra eins bætingu. Svona getur golfið verið, Pétur hafði ekki tekið þátt í neinum mótum og þegar fólk er komið upp á lagið, er það fljótt að hrapa niður í forgjöfinni. Sjálfum tókst mér ágætlega að ná mínum markmiðum, auðvitað hefði ég getað gert betur á sumum holum en allir þátttakendur hafa sömu sögu að segja. Ég endaði á -5, besti hringurinn var á lokadeginum þegar ég var á 66 höggum, -4. Yfir höfuð var ég bara ánægður með þetta,“ sagði Helgi.