Fréttir

Tiger Woods: Þetta er það sem ég hef verið að undirbúa mig fyrir
Tiger Woods.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
þriðjudaginn 4. ágúst 2020 kl. 21:56

Tiger Woods: Þetta er það sem ég hef verið að undirbúa mig fyrir

Hinn 44 ára gamli Tiger Woods verður í eldlínunni um helgina þegar PGA meistaramótið fer fram á TPC Harding Park golfvellinum í Bandaríkjunum.

Woods hefur ekki spilað mikið golf í ár en hann segist hafa verið að undirbúa sig fyrir komandi átök.

„Þetta er það sem ég hef verið að undirbúa mig fyrir. Það eru mörg stór mót framundan og ég hlakka til. Þetta verður gott próf fyrir okkur alla. Röffið er hátt og brautirnar eru þröngar.

PGA meistaramótið er fyrsta risamót ársins en Opna bandaríska mótið fer fram 17.-20. september og Masters mótið 12.-15. nóvember. Opna mótið fer ekki fram í ár.

„Ég er búinn að reyna að undirbúa mig fyrir mótin þrjú, reyna að finna út úr skipulaginu og æfingaprógramminu og huga að því hvernig ég vinn í kringum hvert risamót. Mótin eru bæði í annarri röð og á öðrum tíma ársins en venjulega.

„Þetta verður gott próf fyrir okkur. Ég er búinn að vera undirbúa mig fyrir þetta og hlakka til áskorananna ekki bara í þessari viku heldur í lokakeppninni [FedEx], Opna bandaríska og svo Masters.“

Búið er að birta rástíma fyrstu tvo keppnisdaga mótsins og verður Woods í holli með þeim Rory McIlroy og Justin Thomas.

Aðspurður hvort hann gæti unnið um helgina var svarið auðvelt: „Auðvitað.“