Trump reisir annan golfvöll í Aberdeen
Auðjöfurinn Donald Trump ætlar að reisa annan golfvöll í Aberdeen í Skotlandi. Völlurinn mun verða sunnan við Trump International Links völlinn sem hefur vakið mikla eftirtekt og margir telja að sé einn af bestu golfvöllum heims.
Martin Hawtree mun hanna völlinn en hann hannaði einnig fyrri völlinn í mögnuðu landslagi við ströndina í Aberdeen. Ekki hafa allir verið sáttir við framkvæmdir Trump á svæðinu og var gerð heimildamynd um framkvæmdir við fyrri völlinn sem sýnd var á BBC. Sú mynd fjallaði um hvernig Trump mun hafa kúgað og beitt landeigendur á svæðinu yfirgang. Trump hefur ávallt vísað þeim ásökunum á bug.
Trump á einnig í deilum við skosk yfirvöld sem hyggjast reisa vindmyllur á svæðinu til að búa til rafmagn. Trump telur að þær framkvæmdir muni eyðileggja útsýnið á svæðinu.