Fréttir

Tveir urðu fyrir bolta á fyrsta degi Íslandsmótsins
Benedikt Sveinsson ásamt Björgvini Sigurbergssyni stuttu eftir atvikið.
Fimmtudagur 26. júlí 2018 kl. 20:46

Tveir urðu fyrir bolta á fyrsta degi Íslandsmótsins

Tveir keppendur á Íslandsmótinu í höggleik urðu fyrir því óláni að fá bolta á flugi í sig á fyrsta hring mótsins sem fór fram í dag á Vestmannaeyjavelli. Bæði atvikin áttu sér stað við 13. og 15. holu og mátti litlu muna að verr færi.

Fyrri aðilinn sem varð fyrir bolta var kylfusveinninn Sigurbrandur Dagbjartsson, faðir Perlu Sólar og Dagbjarts, sem bæði eru meðal keppenda í mótinu. Sigurbrandur hlaut skurð á höfuðið en boltinn lenti beint ofan á höfði hans þegar hann gekk á 15. holu. Kylfingur sem sló af teig á 15. holu hafði þá slegið lengra en búist var við og flaug boltinn beint í Sigurbrand.

Einungis um 15 mínútum seinna lenti Benedikt Sveinsson í nánast sömu aðstæðum en þá kom annar bolti fljúgandi, nú frá 13. teig, og lenti í hálsi Benedikts. Í samtali við blaðamann Kylfings sagðist Benedikt vera í ágætum málum eftir hring en hálsinn væri þó mjög bólginn. Hann væri þó frekar svekktur að enginn í hollinu á 13. holu hafi öskrað „fore“.

Ísak Jasonarson
[email protected]