Fréttir

Uppstilling Els byggð á tölfræði
Ernie Els.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 11. desember 2019 kl. 22:14

Uppstilling Els byggð á tölfræði

Fyrirliðinn Ernie Els stefnir á að fagna sigri með Alþjóðaliðinu í Forsetabikarnum í fyrsta skiptið frá árinu 1998 en keppnin hefst í Ástralíu í nótt. Els mætir þar Tiger Woods sem stýrir liði Bandaríkjanna og eru þeir nú þegar búnir að birta liðin sem mætast í fyrstu umferð.

Fyrir Forsetabikarinn í ár leitaði Els til fyrirtækis sem ber heitið 15th Club eða „fimmtánda kylfan“ sem er upplýsingatæknifyrirtæki sem meðal annars hjálpaði evrópska liðinu í Ryder bikarnum í fyrra. Með hjálp fyrirtækisins mun Els velja þá liðsmenn sem henta best saman samkvæmt gögnum og tölfræði.

Til að byrja með keyptu liðsmennirnir ekki alveg hugmynindina en í dag er hljóðið annað.

„Eins og við var að búast vildu ákveðnir leikmenn spila saman, en ég get sýnt þeim ef þeir henta ekki vel saman. Það góða er að strákarnir eru að taka þetta til sín og hlusta á mig en fyrri ár voru leikmennirnir nokkuð fastir á því hverjum þeir vildu spila með.“

Í París í fyrra lenti lið Evrópu 3-1 undir eftir fyrstu umferðina. Fyrirliðinn Thomas Björn stóð þá frammi fyrir þeirri erfiðu ákvörðun hvort hann ætti að halda sig við uppstillinguna miðað við tölfræðina eða að hreyfa við liðinu. Björn hélt sér við planið og lið Evrópu vann næstu umferð 4-0. Fyrir sunnudaginn var evrópska liðið komið í stöðuna 10-6 og liðið komið með níu fingur á bikarinn.

MoliWood teymið (Francesco Molinari og Tommy Fleetwood) var eitt af því sem 15th Club stakk upp á en þeir félagarnir unnu alla sína leiki. Auk þeirra voru þeir Henrik Stenson og Justin Rose settir saman og Rory McIlroy og Ian Poulter byggt á gögnum fyrirtækisins.

Forsetabikarinn hefst sem fyrr segir í nótt. Hér verður hægt að fylgjast með stöðunni.