Örninn/kerrur
Örninn/kerrur

Fréttir

Úrtökumótin: Andri og Guðmundur á parinu | Bjarki á tveimur yfir
Guðmundur Ágúst Kristjánsson.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
föstudaginn 15. nóvember 2019 kl. 16:20

Úrtökumótin: Andri og Guðmundur á parinu | Bjarki á tveimur yfir

Fyrsti keppnisdagur lokaúrtökumótsins fyrir Evrópumótaröð karla fór fram í dag á Lumine golfsvæðinu á Spáni. Eins og fram hefur komið eru þeir Andri Þór Björnsson, Bjarki Pétursson og Guðmundur Ágúst Kristjánsson á meðal keppenda.

Andri og Guðmundur, sem léku saman í dag, komu báðir í hús á pari vallar og eru jafnir í 80. sæti eftir daginn. Bjarki lék á tveimur höggum yfir pari og er jafn í 123. sæti. Leikið er á tveimur völlum, Lakes vellinum og Hills vellinum, og léku allir Íslendingarnir á Hills vellinum.

Andri var um tíma kominn á þrjú högg yfir par en flottur kafli á síðari níu holunum kom honum undir par. Hann tapaði svo einu höggi undir lokin og fékk hann því einn skramba, þrjá skolla, þrjá fugla, einn örn og restina pör.

Guðmundur lék öllu stöðugra golf. Hann fékk þrjá fugla á hringnum í dag, þrjá skolla og restina pör, þar af kom fugl á lokaholunni sem kom honum aftur á parið.

Bjarki byrjaði daginn á þremur pörum en fékk svo þrjá skolla í röð og var hann á því skori eftir níu holur. Hann lék svo vel á síðari níu holunum þar sem hann fékk tvö fugla, einn skolla og restina pör.

Eins og greint var frá fyrr í dag er blaðamaður kylfings á svæðinu og munu viðtöl og myndbönd frá hringnum í dag koma innan skamms.

Hér má sjá stöðuna í mótinu.

Eftir fjóra hringi verður skorið niður í mótinu og halda þá um 70 kylfingar áfram. Til þess að fá fullan keppnisrétt á Evrópumótaröðinni þurfa strákarnir okkar að enda í einu af 25 efstu sætunum að sex hringjum loknum.