Fréttir

Úrtökumótin: Dagbjartur jafn Koepka fyrir lokahringinn
Chase Koepka.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 19. september 2019 kl. 16:34

Úrtökumótin: Dagbjartur jafn Koepka fyrir lokahringinn

Líkt og Kylfingur greindi frá fyrr í dag er Dagbjartur Sigurbrandsson í fínum málum fyrir lokahringinn á 1. stigs úrtökumóti fyrir Evrópumótaröð karla sem haldið er í Englandi.

Dagbjartur er á höggi undir pari eftir þrjá hringi og þarf að komast upp um þrjú til fjögur sæti á lokahringnum til þess að komast á 2. stig úrtökumótanna.

Athygli vekur að Dagbjartur er jafn Bandaríkjamanninum Chase Koepka fyrir lokahringinn en um er að ræða yngri bróður besta kylfings í heimi, Brooks Koepka.

Chase er fæddur árið 1994 en hann hefur leikið á Evrópu- og Áskorendamótaröðinni undanfarin ár. Hann var með fullan keppnisrétt á Evrópumótaröðinni árið 2018 en missti keppnisréttinn þegar hann endaði tímabilið í 182. sæti á stigalistanum. Í ár hefur hann leikið á Áskorendamótaröðinni og stefnir á að komast aftur á Evrópumótaröðina með góðum árangri í úrtökumótunum.

Eldri bróðir Chase hóf einmitt farsælan feril sinn í Evrópu og verður því forvitnilegt að fylgjast með þeim yngri á komandi árum.

Lokahringur 1. stigs úrtökumótsins fer fram á morgun, föstudag. Hér verður hægt að fylgjast með skori keppenda.


Skorkort Chase Koepka fyrstu þrjá keppnisdagana.