Fréttir

Úrtökumótin: Magnaður lokahringur hjá Bjarka
Bjarki Pétursson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 11. nóvember 2019 kl. 14:36

Úrtökumótin: Magnaður lokahringur hjá Bjarka

Bjarki Pétursson GKB kláraði í dag lokahringinn á 2. stigs úrtökumóti sem haldið er á Bonmont vellinum á Spáni. Bjarki lék frábært golf á lokahringnum og kom inn á sex höggum undir pari við erfiðar aðstæður og er á leið áfram á lokastigið.

Miðað við aðstæður var nánast pottþétt að skor Bjarka myndi duga til þess að komast áfram færi svo að allir keppendur myndu ná að klára fjórða hringinn í dag.

Blaðamaður Kylfings hafði samband við Bjarka sem sagði þá að ef síðustu menn næðu ekki að klára í dag væru líkur á að fjórði hringurinn yrði felldur niður. Hann myndi því bíða næstu tímana og vona að veðrið héldist í lagi en búið var að fresta hringjum mótsins oftar en einu sinni vegna mikils vinds.

Bjarki fékk alls sjö fugla og einn skolla á lokahringnum en hann hóf leik í gær á 10. teig og kláraði svo í dag eftir enn eina frestunina. Að sögn Bjarka var hann gríðarlega einbeittur á lokahringnum en mótið hefur tekið sinn toll.

Bjarki endaði að lokum í 8. sæti í úrtökumótinu og er því á leiðinni í lokaúrtökumótið ásamt þeim Andra Þór Björnssyni og Guðmundi Ágústi Kristjánssyni sem tryggðu sér einnig þátttökurétt í gegnum 2. stigs úrtökumót.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Lokaúrtökumótið fer fram dagana 15.-20. nóvember á Lumine golfsvæðinu á Spáni.