„Fall er fararheill“ á vel við um daginn hjá Min Woo Lee
Dagurinn byrjaði ekki glæsilega hjá Min Woo Lee en hann hóf í dag leik á Scottish Open mótinu sem er hluti af Evrópumótaröð karla. Hann lét slæman undirbúning og miklar hrakfarir ekki stöðva sig í því að leika besta hring ferilsins í Rolex Series móti.
Lee mætti á svæðið í dag og komst þá að því að hann hafði gleymt aðgangskortinu sínu til að komast inn á golfvöllinn. Stuttu síðar áttaði hann sig á því að hann var ekki með regnjakkann sinn með sér og það gekk á með rigningu í dag á mótssvæðinu. Síðan lenti hann í því að týna símanum sínum og eftir að hafa stytt upphitunina sína út af öllum hrakförunum þurfti hann að útvega sér fleiri boltum þar sem hann var ekki með nægilega marga í pokanum.
Allt þetta kom þó ekki að sök því hann fékk sex fugla á hringnum í dag og tapaði aðeins einu höggi. Hann er eftir daginn jafn í áttunda sæti á samtals fimm höggum undir pari.
Íslenski málshátturinn „fall er fararheill“ hefur eflaust sjaldan átt eins vel við og hjá Lee í dag.