Örninn 2025
Örninn 2025

Fréttir

„Grundvallarhugmyndin í golfi er að kylfingar slái á hlið“
Dylan Frittelli undirbýr höggið sem síðar var úrskurðað ólöglegt á Harbour Town. Ljósmynd: Twitter/Ross Lordo
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
þriðjudaginn 19. apríl 2022 kl. 11:43

„Grundvallarhugmyndin í golfi er að kylfingar slái á hlið“

„Vilja menn aftur opna á krokket-stíl Sam Snead? Maður spyr sig“. Hörður Geirsson, alþjóðadómari, veitir Kylfingi viðbrögð við úrskurði gegn Dylan Frittelli á RBC Heritage.

Golfreglurnar eru margar og geta verið ansi snúnar. Ekki eru allir sem hafa kynnt sér þær í þaula eða muna þær þegar mikið liggur við. Suður-Afríkumaðurinn Dylan Frittelli fékk að kenna á reglunum á lokahring RBC Heritage á PGA-mótaröðinni síðasta sunnudag.

Á 6. braut lenti Frittelli upphafshöggi sínu uppi í tré, svo kölluðum Spánarmosa, og þar hékk boltinn fastur, rétt fyrir ofan höfuðhæð Frittelli.

Örninn 2025
Örninn 2025

Hann virtist á myndskeiði af atvikinu hafa haft mestar áhyggjur af því hvort boltinn teldist skv. skilgreiningu reglu 10.1d vera á hreyfingu þar sem hann hékk fastur í gróðrinum sem golan á Harbour Town sveiflaði til og frá.

Suður-Afríkumaðurinn kom boltanum út á brautina, sló svo innáhöggið 3 metra frá stöng og bjargaði pari, eða það hélt hann.

Hann gætti þá ekki að sér í högginu gagnvart reglu 10.1c sem kveður á um að leikmaður megi ekki slá högg með fæturna vísvitandi sitt hvoru megin við leiklínuna eða annan fótinn vísvitandi í henni eða framlengingu hennar aftan við boltann. Nokkru eftir að Frittelli skilaði inn skorkorti sínu voru honum dæmd tvö högg í víti eftir myndskeiði af atvikinu.

Frittelli var í sjálfu sér ekki ósáttur við úrskurðinn en hann sagði í samtali við golf.com að honum fyndist sérstakt að ekki væri svigrúm til að túlka reglurnar miðað við aðstæður.

Kylfingur leitaði viðbragða hjá Herði Geirssyni, alþjóðadómara, á atvikinu en Hörður sá um þýðingu á gildandi golfreglum yfir á íslensku. Hörður sagði reglu 10.1c hafa verið setta upphaflega árið 1968 eftir að Sam Snead hefði tekið upp á því að pútta með eins konar krokket-stíl og síðar hafi reglan verið útvíkkuð þannig að hún nái yfir öll golfhögg.

„Grundvallarhugmyndin í golfi er að kylfingar slái á hlið. Svo má deila um hversu mikilvæg sú grundvallarhugmynd er. Reglan var sett svo kylfingar gætu ekki bætt leikstöðu sína með uppstillingu við boltann með þessum hætti. Það er ekki útilokað að kylfingar hreinlega viti ekki af reglunni eða beri sig óvart að með þessum hætti. Við dómarar höfum reglulega bent á þetta, m.a. á 18. braut á Hvaleyrinni ef kylfingar lenda öðru höggi sínu upp við grjót vinstra megin við flötina. Þá getur oft verið erfitt að stilla sér upp og það hefur komið fyrir að uppstilling reynist ólögleg.“

Hörður Geirsson, alþjóðadómari. Ljósmynd: GSÍ/Sigurður Elvar Þórólfsson

Hörður segir dómarana ekki hafa átt neinna kosta völ í atvikinu hjá Dylan Frittelli.

„Leikmaðurinn hefði getað kallað til dómara sem hefði getað leiðbeint. Varðandi regluna sjálfa, verður að líta til vilja löggjafans ef svo má segja, vilja menn aftur opna á krokket-stíl Sam Snead, maður spyr sig.“

Frittelli sagði sjálfur á samfélagsmiðlum að dómari hefði verið viðstaddur og ekki gert athugasemd við framkvæmdina, sem segir kannski mest um hversu óvenjulegar aðstæðurnar voru og vekur hinn almenna kylfing kannski til umhugsunar um það hvort leyfa eigi víðari túlkun reglnanna miðað við aðstæður hverju sinni.