Örninn 2025
Örninn 2025

Fréttir

„Það eru allir velkomnir í GM“
Hlíðavöllur í Mosfellsbæ
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
föstudaginn 1. apríl 2022 kl. 15:33

„Það eru allir velkomnir í GM“

Öflugt íþróttastarf fyrir börn- og unglinga og fólk á öllum aldri auk félagsstarfs í hæsta gæðaflokki í Mosfellsbæ

Golfklúbbur Mosfellsbæjar varð til við sameiningu Golfklúbbsins Kjalar og Golfklúbbsins Bakkakots árið 2014. Félagssvæði klúbbsins er því bæði á og við Hlíðavöll sem stendur við ströndina í Mosfellsbæ og í Bakkakoti í gróðursæld Mosfellsdals. Vellirnir eru ansi ólíkir en báðir tveir einstakir á sinn hátt. Hlíðavöllur er glæsilegur 18 holu völlur og við hann hefur hið glæsilega klúbbhús, Klettur, staðið síðan árið 2017. Í Bakkakoti er aftur afskaplega sjarmerandi 9 holu völlur sem hentar bæði byrjendum sem lengra komnum.

Kylfingur tók hús á Ágústi Jenssyni framkvæmdastjóra GM á dögunum. Ágúst segir að það sem einkenni Golfklúbb Mosfellsbæjar sé fyrst og fremst öflugt félagsstarf þvert á aldur og kyn félagsmanna og fjölskylduvæn stemningin innan klúbbsins.

Örninn 2025
Örninn 2025

„Við getum tekið við 100 nýjum félögum“

Ágúst segir félaga í GM vera rétt tæplega 1.900 talsins en að klúbburinn geti bætt við sig u.þ.b. 100 félögum í sumar.

„Við höfum farið okkur hægt í fjölgun á félagsmönnum en þó tæplega tvöfaldað fjölda þeirra síðan vorið 2020 þegar þeir voru tæplega 950 talsins. Okkur þykir mikilvægt að okkar félagsmenn geti gengið nokkuð örugglega að rástímum með stuttum fyrirvara og það hefur einnig sýnt sig í viðhorfskönnunum meðal félagsmanna. Það er yfirlýst stefna hinnar frábæru stjórnar GM að fara þá leið. Við fórum í fyrsta sinn í fyrra á biðlista en nú hefur verið smá hreyfing svo teljum okkur geta tekið við u.þ.b. 100 nýjum félögum í klúbbinn.“

Ágúst segir að þó klúbburinn miði við 100 nýja félaga muni börn og unglingar 18 ára og yngri alltaf vera velkomin. Hann segir að það gildi ekki sömu lögmál um krakkana, þau taki ekki alveg sömu rástíma og noti þjónustuna á annan hátt en fullorðnir félagar.

Árið 2017 varð mikil bylting í GM þegar hin glæsilega íþróttamiðstöð, Klettur, var tekin í notkun. Íþróttamiðstöðin mun þjóna kylfingum allt árið.

Neðri hæðin, sem er 550 fermetrar, hýsir tvo golfherma sem eru leigðir út til almennra félagsmanna og annan hermi fyrir unglinga- og afreksstarfið. Þá er prýðilegt vipp- og púttsvæði á hæðinni ásamt fyrirlestrarsal.

„Þetta var auðvitað stórkostleg breyting. Við fórum úr netakassa hérna niður í vélaskemmu í þessa frábæru aðstöðu í íþróttamiðstöðinni.“

Klúbbhúsið okkar er stórkostlegt. Það er hjartað í allri okkar starfsemi. Við erum enn að læra inn á hvernig við nýtum það best. Við búum svo vel að hér innanhúss er einn allra vinsælasti veitingastaður Mosfellsbæjar.

Hér kemur aragrúi af fólki sem spilar ekki golf. Hér er gott að leggja bílnum og taka göngutúr meðfram ströndinni. Hjólreiðafólk kemur mikið hérna eftir góðan hjólreiðatúr. Fólk sest hér niður og fær sér kaffi eða kaldan drykk og slakar á. Þetta hverfi sem við erum í er eitt vinsælasta hverfi bæjarins. Ég held að aðstaðan okkar hér spili rullu þar. Þetta er hluti af þessari afþreyingu fyrir bæjarbúa, þú getur komið hingað þó þú spilir ekki golf.

„Fólk á öllum aldri vill keppni, líf og fjör“

Afreksstarfið hefur blómstrað í GM en karlamegin á klúbburinn núverandi Íslandsmeistara í holukeppni, Sverri Haraldsson, sem leggur nú stund á háskólanám í Bandaríkjunum og leikur golf samhliða. Konurnar í klúbbnum hafa látið til sín taka einnig og skemmst er að minnast þess að á Landsmóti í golfhermum í mars sl. átti GM sex konur af þeim átta sem tryggðu sér sæti í úrslitakeppninni.

„Við leggjum mikið upp úr afreksstarfinu og horfum björtum augum á það“

Þá segir Ágúst að í klúbbnum sé lagt mikið upp úr barna- og unglingastarfi.

„Yfir sumartímann eru 350-400 krakkar í starfinu. Þetta eru auk krakka sem æfa íþróttina hjá okkur, krakkar í golfskólanum og almennir meðlimir í klúbbnum 18 ára og yngri. Í vetur voru rúmlega 100 krakkar á vetraræfingum hjá okkur en það hafa aldrei áður verið svo margir yfir vetrartímann.“

Stúlknasveit GM 18 ára og yngri fagnar Íslandsmeistaratitli golfklúbba árið 2021

Hann segir að aukinn áhugi skýrist af tveimur megin þáttum.

„Í fyrsta lagi hefur orðið stórkostleg framför í allri þjálfun kennslu og æfingum og auðvitað aðstöðunni hjá okkur. Þá teljum við að okkur hafi tekist með margvíslegum hætti að skapa aðstæður fyrir börn og unglinga í GM til að stunda íþróttina á sínum forsendum.“

Ágúst nefnir golfhermavæðinguna sem sé náttúrulega stórkostleg. Með hermunum geti iðkendur haldið sér mjög vel við yfir vetramánuðina.

„Keppnin heldur áfram með félögunum; vinunum og vinkonunum og þessir TrackMan hermar sem við notumst við eru það næsta sem þú kemst því að spila golf yfir vetrarmánuðina.“

Golfhermar á borð við TrackMan eru stórkostleg kennslutæki. Í dag geta þeir sem leggja sig fram við það þekkt nákvæmlega hvernig sveifluferillinn er og hvernig kylfuhausinn kemur inn o.s.frv. og þá hvað þarf að laga hverju sinni og hvernig.

Ágúst segir gríðarlega öflugt kvennastarf vera í GM en klúbburinn vilji auka hlut kvenna enn frekar.

„Við brugðum á það ráð að bjóða mökum GM félaga 50% afslátt nýliðaafslátt. Í fyrra komu að megninu til konur í gegnum þann afslátt en einhverjir karlar reyndar líka.“

Hann segir kvennanefndina mjög öfluga og það sé boðið upp á skipulagða viðburði nánast vikulega í kvennastarfi klúbbsins yfir sumarið og einnig vikuleg púttkvöld yfir vetrartímann fyrir konurnar.

„Við viljum miklu fleiri konur í klúbbinn.“

Þó afreksstarf, barna- og unglingastarf sé fyrirferðamikið hjá GM er unnið markvisst íþróttastarf fyrir fólk á öllum aldri í klúbbnum.

„Við höfum viljað útvíkka eiginlegt íþróttastarf hjá okkur því það eru fjölmargir eldri kylfingar sem vilja keppni, líf og fjör en ekki eingöngu labba hring eftir hring með sama hollinu og kynnast engu öðru. Fyrir þetta fólk erum við með markvissar æfingar fyrir 50 ára og eldri og erum að hefja starf fyrir 65 ára og eldri en vel yfir 300 félagsmenn í GM eru 65 ára og eldri. Það er mikill áhugi í þessum elsta hópi.“

Fjölbreytt námskeið, þjálfun og kennsla

Í vor og sumar verður farið af stað með alls kyns námskeið fyrir hinn almenna félagsmann að sögn Ágústs.

„Þetta verða fjölbreytt námskeið fyrir stærri og minni hópa og í formi einkakennslu. Jafnvel munum við bjóða upp á að kylfingar geti fengið að æfa reglulega undir handleiðslu kennara. Því það er keppnisskap í okkur mörgum. Margir íþróttamenn sem hættir eru að keppa í sinni íþrótt finna sig í golfinu og keppnisskapið hverfur ekkert þó fólk sé hætt að stunda sína íþrótt. Það er ekki hægt að leggja það á hilluna.“

Í GM er hlúð sérstaklega að nýliðum og þeir boðnir sérstaklega velkomnir.

„Við erum búin að setja saman kynningarefni fyrir nýliða og verðum með mjög flott nýliðanámskeið. Við bjóðum ölum okkar félögum á námskeiðið. Á námskeiðinu munum við fjalla um Golfklúbbinn og golfreglurnar og svo mun okkar kæri klúbbfélagi Þorsteinn Hallgrímsson fyrrverandi Íslandsmeistari flytja skemmtilegan fyrirlestur um golfíþróttina; hvað golf er, hvernig við högum okkur úti á velli og hvað er gott að vita. Þó námskeiðið sé sniðið að nýliðum þá vonumst við til að sjá sem flesta af okkar félögum, helst alla.“

Þorsteinn Hallgrímsson gantast hér við fótboltamennina Sol Campbell og Hermann Hreiðarsson. Ljósmynd: mbl.is

„Við erum ekki síður félagsmiðstöð“

Ágúst segir að í GM sé lagt mikið upp úr fjölbreyttu, skipulögðu og öflugu félagsstarfi.

„Við höfum haldið glæsilega holukeppni og liðakeppni. Þá erum við með stigalista og sérstaka mótaröð meðal félagsmanna.“ Þá segir Ágúst að Meistaramót klúbbsins sé einstakt og einn af hápunktum golftímabilsins.

Mikið félagslíf er að fá úr golfiðkun. Ágúst segir það vera svo einstakt við sportið.

„Við getum tekið dæmi um hjón sem skrá sig á teig og lenda með öðrum hjónum sem þau hafa aldrei áður hitt. Þau eiga góðan dag á vellinum. Seinna fara þessi sömu hjón aftur í golf og sjá þá nöfn sömu hjóna á rástíma sem hentar þeim og skrá sig á tímann með þeim. Þarna eru hjónin búin að eignast nýja vini eftir einn til tvo golfhringi. Þau eru kannski ekki að fara að hringja strax og bjóða sér eða þeim í heimsókn en það gæti komið seinna.“

Ágúst segir að þó GM sé bæði golfklúbbur og íþróttafélag þá horfa forsvarsmenn klúbbsins ekki síður á hann sem félagsmiðstöð.

„Við settum bæði upp borðtennisborð og fótboltaspil fyrir okkar félagsmenn enda lítum við ekkert síður á klúbbhúsið okkar sem félagsheimili fyrir okkar fólk.“

„Við lítum svo á að ef krakkarnir eigi afdrep á sínu æfingasvæði séu þau allt eins líkleg til að láta sér detta í hug að slá nokkur högg sem annars hefðu ekki verið slegin. Þau hafi aðgang að aðstöðunni hvenær sem er, m.a. hermunum.“

Ágúst segir íþróttamiðstöðina vera samverustað fyrir félagsmenn og sérstaklega börn og unglinga sem séu alltaf velkomin.

„Þau geta alltaf komið í golfhermana endurgjaldslaust séu þeir lausir og eins erum við með einn hermi sérstaklega fyrir okkar íþróttastarf sem almennur félagsmaður getur ekki bókað sig í. Krakkarnir koma hingað og vippa og pútta og hitta félagana. Þau kannski koma hérna upp og fá sér pizzu og fara svo niður í borðtennis og slá kannski 50 bolta í leiðinni. En ef okkar krakkar nenna kannski ekki að slá þennan eða hinn daginn og vilja bara fara í borðtennis, taka eina skák eða sitja og spjalla þá er það bara í fínu lagi. Þau eru þó alltaf líklegri til að grípa í kylfu ef þau hittast hér í íþróttamiðstöðinni þar sem allt er til alls.“

Ágúst segir að þótt í GM sé mikið lagt upp úr bæði unglinga- og afreksstarfi, þá sé ekki síður horft til þess að búa til félagsmenn og raunar telja forsvarsmenn klúbbsins það stóran hluta af starfi hans.

„Við veitum okkar krökkum frelsi til að taka sínar ákvarðanir gagnvart golfinu á eigin forsendum og við reynum að styðja þá á þann hátt sem þeim og þeirra metnaði hentar. Við viljum að fólk vilji vera í GM. Við viljum að fólk hugsi til klúbbsins með hlýhug og að gott sé að vera í klúbbnum. Að krakkarnir okkar hugsi til þess í framtíðinni að þau hafi verið hér sem börn og það hafi verið haldið vel utan um þau þá og að börnin þeirra séu hér nú og það sé vel haldið utan um alla fjölskylduna. Að hér sé gott að vera, að þau vilji vera hér og leggja sitt af mörkum.“

Golf er afþreying fyrir alla fjölskylduna

Golfið er að mati Ágústs eitt besta fjölskyldusportið.

„Golfið er svo stórkostlegt að því leitinu til að við getum séð labba út á teiginn holl þar sem er einn 8 ára, einn 18 ára, einn 48 ára og einn 78 ára einstaklingur. Svo er bara hörkukeppni t.d. upp á hamborgara og kók. Það er einstakt við þetta frábæra sport.“

Golfklúbbur Mosfellsbæjar bíður upp á fjölskyldugjald sem virkar þannig að ef foreldrar eru báðir í klúbbnum eða einstætt foreldri þá fá börn 18 ára og yngri félagsgjaldið frítt.

„Við fundum mikinn mun þegar krakkarnir voru pressulausir því foreldrar skylda þau síður til að mæta þegar þau æfa frítt. Eftir fyrsta sumarið varð allt í einu stórt stökk í iðkendafjölda yfir vetrarmánuðina að því að við teljum að hluta til vegna þess að krakkarnir byrjuðu í golfi á réttum forsendum.“

Fjölskyldustund í golfi er frábær forvörn segir Ágúst.

„Fjölmargar rannsóknir sýna að besta forvörnin fyrir börn er samvera með foreldrum. Er þá ekki bara best að fara í 2 eða 4 tíma út á völl og spila 9 eða 18 holur, skilja símann eftir í golfpokanum eða bílnum og njóta samverunnar?“

„Góðir hlutir gerast hægt“

„Við erum með glæsilegan 18 holu völl hér í Mosfellsbæ í Hlíðavelli. Graslega séð teljum við hann vera með allra bestu golfvöllum landsins undanfarin sumur. Við heyrum ekkert annað en ánægjuraddir frá okkar félagsmönnum sem og gestum með völlinn. Við höfum bætt aðstöðuna undanfarið með t.d. klósettaðstöðu á vellinum og öðru sem fólki þótti vanta hér á Hlíðavelli. Framundan hjá okkur er að einbeita okkur að alhliða snyrtimennsku og lappa aðeins upp á svæðið í kringum klúbbhúsið. Við munum fara í að laga göngustíga og bekki, huga að ruslatunnum og umhverfi bæði teiga og klúbbhússins. Þá höfum við ráðið garðyrkjufræðing til okkar í sumar sem mun starfa á báðum völlunum.“

„Við hyggjum á breytingar í Bakkakoti. Auk uppbyggingar í kringum skálann, stendur til að taka úr umferð fyrstu tvær brautirnar til að bæði minnka slysahættu og lyfta vellinum á aðeins hærra plan.Við stefnum á að völlurinn í Bakkakoti sem hannaður verður af Tom Mackenzie, verði falin perla. Að hann verði öruggari og með enn fallegri brautum. Hann verði bæði byrjendavænn og fjölskylduvænn en ekki síður áskorun fyrir betri kylfinga með sínum litlu flötum sem er ekki einfalt að hitta og bjóði upp á aðeins öðruvísi golfhögg en lengri vellir. Við vonumst til að ljúka við breytingar í Bakkakoti á næstu 4-5 árum.“

Auk vallanna tveggja er æfingasvæði á Hlíðavelli sem er að taka breytingum að sögn Ágústs.

„Við erum að setja upp boltavél og 25 mottur ásamt 650 fermetra stórri púttflöt. svo það er ýmislegt framundan og ég vona að okkar meðlimir og aðrir gestir sem koma hérna í sumar muni sjá einhverjar smá framfarir en þetta tekur náttúrulega allt sinn tíma og eins og góður maður sagði þá gerast góðir hlutir hægt. Íslenska golftímabilið er þannig að við erum með rétt um þriggja mánaða vaxtartímabil grass svo það gerist ekkert á ógnarhraða þrátt fyrir mikla framþróun í þekkingu á golfvallarfræðum. Það eru hlutir sem við erum að gera í dag sem voru mjög fjarlægir okkur fyrir 10 árum og hvað þá 20 árum svo þróunin er hröð og það er bara bjart framundan.“

„Við viljum ala upp ala upp góða kylfinga en ekki síður gott fólk“

Ágúst segir að GM vilji vera skemmtilegur og fjölskylduvænn klúbbur.

„Golf er geggjuð íþrótt. Við erum íþróttafélag en við erum einnig afþreying. Það ætla sér ekki allir það sama. Það eru ekki allir í barna- og unglingastarfinu sem ætla sér að verða afreksmenn. Sumir eiga sér þann draum að verða afreksmenn, jafnvel atvinnumenn en aðrir vilja kannski komast til Bandaríkjanna á skólastyrk og fá þau tækifæri sem bjóðast í kjölfarið á meðan enn aðrir vilja bara vera góðir kylfingar.“

„Við í GM viljum alls ekki síður vera þekkt fyrir að ala upp fólk en kylfinga sem slíka. Fólk sem kemur vel fyrir og kemur vel fram við aðra.“

„Þegar stjórnin og forsvarsmenn klúbbsins fóru norður á Íslandsmótið í fyrra var virkilega gaman að heyra af ánægju fólks úr öðrum klúbbum með okkar kylfinga. Hvað þeir komu vel fram og hvað krakkarnir okkar væru góðar manneskjur. Þau sýndu af sér góða háttsemi, voru snyrtileg til fara og kurteis. Þau töluðu af virðingu við og um aðra svo eftir var tekið. Við leggjum áherslu, í öllu okkar starfi, á að ala upp gott fólk. Fólk sem kemur fram við meðspilara og mótspilara af virðingu.“

Fríir boltar á æfingasvæðinu fyrir félagsmenn

Auk aðgangs að tveimur völlum, æfingaaðstöðu bæði úti og inni, þá mun GM bjóða sínum félagsmönnum upp á fría bolta á æfingasvæðinu. Ágúst segir það vera félagsmönnum mikilvægt. Líkt og aðrir klúbbar er GM í góðu samstarfi við klúbba víðs vegar um land og eru vinavellir GM vel á annan tug út aum allt land.

„Við leggjum áherslu á að dreifa okkar vinavöllum jafnt og þétt um landið.“

„Tæknin getur hjálpað okkur“

Talið berst að bókunarferlinu í golfinu í dag og þeirri tækni sem notast er við í gegnum Golfbox. Ágúst segir tækifæri í tækninni.

„Ég sé fyrir mér að það væri til dæmis hægt að nýta tæknina þannig að ef kylfingar vita að þeir muni eingöngu fara 9 holur þann daginn, geti þeir merkt við það og þá opnist 9 holu rástími á seinni níu holunum fyrir aðra kylfinga sjálfkrafa. Eins væri mögulega hægt að útbúa leitarvél að rástímum með einhverjum ákveðnum forsendum, t.d. 18 holur milli 14 og 17 þann daginn eða eitthvað slíkt. Að sama skapi gæti hjálpað ef hægt væri að skrá pásu á milli fyrri og seinni níu þannig að fólk geti stílað inn á mat t.d. á milli. Við teljum að tæknin geti hjálpað mikið í skipulagningu á nýtingu á völlunum.“

„Golf er best í heimi“

Ágúst segir Mosfellsbæ vera heilsueflandi samfélag.

„Við teljum GM vera góðan kost í afþreyingu og við tökum það hlutverk okkar mjög alvarlega. Ágúst segir ástæðuna fyrir því að golf sé jafn vinsælt á Íslandi og raun ber vitni þá að golf sé fyrir alla. Það er mikill misskilningur að það sé dýrt að vera í golfi. Jú vissulega þarf einhverjar græjur en þær geta dugað í áratug eða lengur. Þetta er alls ekki dýrt sport þegar þú horfir á aðstöðuna og hvað þú færð fyrir peninginn. Ef við berum golf saman við aðrar íþróttir, þá getur þú greitt félagsgjald og stundað golf nánast allt árið eins oft og lengi og þú vilt en í mörgum öðrum greinum borgar þú æfingagjald og færð kannski 4-6 æfingatíma í viku.“

Golfklúbbur Mosfellsbæjar hefur vaxið hratt og félagatalið nærri tvöfaldast á tiltölulega skömmum tíma.

„Vissulega fylgja þetta örum vexti einhverjir vaxtaverkir en ég held að við höfum gert margt vel og við höfum lagt okkur fram við að hlusta á okkar félaga og reynt að bæta okkur í rétta átt. Vonandi ber okkur gæfa til að halda því áfram og vera góður staður fyrir Mosfellinga og aðra til að koma á, hvort sem í skipulagt íþróttastarf eða almenna afþreyingu.

Ágúst vill að lokum hvetja alla til að kynna sér golfíþróttina og fjölmargar hliðar hennar.

„Það eru allir velkomnir í GM. Flestir sem prófa golf kolfalla fyrir þessu heillandi sporti því eins og við vitum sem stundað höfum golf, þá er golf einfaldlega best í heimi.“