Fréttir

10 kylfingar sem geta slegið í gegn á árinu - 1. hluti
Justin Suh.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
sunnudaginn 3. janúar 2021 kl. 17:59

10 kylfingar sem geta slegið í gegn á árinu - 1. hluti

Það er ekki langt síðan þeir Collin Morikawa, Matthew Wolff og Viktor Hovland hófu sinn atvinnumannaferil en þeir eru engu að síður komnir með samtals sex sigra á PGA mótaröðinni.

Engir nýliðar verða á PGA mótaröðinni þetta tímabilið vegna áhrifanna sem Covid-19 hafði á aðstæður. Það eru samt margir ungir kylfingar sem þykja líklegir til árangurs á árinu og ætlum við að kynna þá hérna næstu þrjá dagana. Flestir eiga þessir kylfingar það sameiginlegt að fólk þekkir nöfn þeirr eflaust ekki.

Takumi Kanaya
Staða á heimslistanum í byrjun árs: 123

Síðan þessi japanski kylfingur gerðist atvinnumaður, er þessi fyrrum efsti maður áhugamannaheimslistans búinn að lenda fjórum sinnum á meðal sjö efstu í þeim fimm mótum sem hann hefur leikið í á japönsku mótaröðinni, þar á meðal kom einn sigur á Dunlop Phoenix mótinu. Hann hefur því farið hratt upp heimslistann og alls ekki ólíklegt að hann muni sjást á einhverjum af risamótum ársins.

Bandon Wu
Staða á heimslistanum í byrjun árs: 170

Ef þú vilt skoða kylfinga sem tóku mesta stökkið á heimslistanum þá er enginn kylfingur í topp 1000 sem fór upp fleiri sæti en Wu. Wu, sem lék við góðan orðstír hjá Stanford háskólanum, vann eitt mót á Korn Ferry mótaröðinni síðasta sumar og varð tvisvar sinnum í öðru sæti. Hann er því til alls líklegur að berjast um stigatitilinn á Korn Ferry mótaröðinni þetta árið.

Justin Suh
Staða á heimslistanum í byrjun árs: 416

Suh var fjórði kylfingurinn sumarið 2019 sem voru bundnar miklar vonir við. Þrír af þeim, Morikawa, Wolff og Hovland, hafa nú þegar unnið mót en Suh lenti í meiðslum en virðist loks vera að komast yfir þau. Hann endaði jafn í áttunda sæti á Shriners Open síðasta haus og hann náði einnig góðum árangri á minni mótaröðum á vegum PGA mótaraðarinnar. Hann er með keppnisrétt á PGA Tour Latinoamerica í ár en hann mun einnig fá boð í mót á stærri mótaröðum.