Guðrúnu Brá vantaði eitt högg - endaði í 24. sæti - fær þó góðan þátttökurétt á LET
Guðrún Brá Björgvinsdóttir lék vel í lokahringnum en var höggi frá því að tryggja sig í tuttugu efstu sætin á lokaúrtökumótinu fyrir LET Evrópumótaröðina á Al Maaden Golf Marrakech og Royal golf Marrakech golfvöllunum í Marakkó. Hún endaði í 24-.-29. sæti á 8 höggum undir pari. Tuttugu efstu tryggja sér þátttökurétt á LET Evrópumótaröð kvenna á næsta ári. Með árangrinum vinnur Guðrún sér takmarkaðan þátttökurétt, þó meira en 50% móta.
Guðrún fékk þrjá fugla og tvo skolla á lokahringnum.
Með árangrinum vinnur hún sér inn CAT 16 þátttökurétt í mótaröðinni á næsta ári, sem þýðir að Guðrún fái tækifæri til að taka þátt í mörgum mótum á tímabilinu. Reiknað er með að hún geti leikið í u.þ.b. 15 af 28 mótum tímabilsins, og á þann möguleika að vinna sér inn fullan þátttökurétt með góðum árangri snemma á tímabilinu.
Ragnhildur Kristinsdóttir endaði jöfn í 66. sæti á 2 undir pari 72 holurnar. Hún lék lokahringinn á einu höggi undir pari. Ragga var í frábærri stöðu fyrir lokamótið á LET Access mótaröðinni í haust en var mjög óheppin og datt niður í 8. sæti og þurfti því að fara í lokaúrtökumótið. Þar náði hún sér ekki nógu vel á strik og því nokkuð ljóst að hennar bíðar keppni á LET Access röðinni næsta ár.
Andrea Bergsdóttir lék í fyrsta skipti á LETAS í ár og stóð sig mjög vel, endaði í 12. sæti á stigalistanum. Þetta var hennar fyrsta tilraun í lokaúrtökumóti. Hún endaði á sjö yfir pari og var jöfn í 127. sæti.
Hulda Clara Gestsdóttir endaði jöfn í 151. sæti í sinni fyrstu tilraun í lokaúrtökumóti. Hún lék á 15 yfir pari og náði sér ekki á strik í mótinu eftir að hafa leikið vel í fyrra úrtökumótinu í síðustu viku.





