Public deli
Public deli

Fréttir

Aldrei valkostur að gefast upp
Róbert Leó eftir sigurinn í París
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
þriðjudaginn 19. september 2023 kl. 10:31

Aldrei valkostur að gefast upp

Vann öflugt unglingamót í París einu og hálfu ári eftir að hafa greinst með langtímasjúkdóm. Stefnir á háskólagolfið í Bandaríkjunum.

„Ég var klár á því að ég hefði ekki unnið mótið þegar ég kláraði parið á lokaholunni,“ segir Róbert Leó Arnórsson, 18 ára, sem hefur farið fjallabaksleiðina á sínum unga golfferli má segja. Eftir að hafa verið efnilegur á yngri árum, lenti hann í heilsufarsvandamálum, léttist mikið og fór ekki að sjá almennilega fram úr veikindunum fyrr en í apríl á þessu ári. Hann vann hið öfluga unglingamót, Crecy Junior International í París á dögunum en mótið er hluti af Global Junior Golf mótaröðinni.

Róbert hefur alltaf verið með golfkylfuna innan handar og var farinn að æfa sveifluna og pútta með föður sínum um þriggja ára aldur. Hann byrjaði að æfa golf hjá GKG þegar hann var níu ára en byrjaði að æfa af krafti árið 2016 þegar hann hætti að æfa aðrar íþróttir samhliða golfinu. 

„Árið 2021 fór ég að finna fyrir ansi miklum magaverkjum og slappleika. Það gekk illa í fyrstu að finna út hvað væri að valda þessu og þetta ágerðist stöðugt. Í Íslandsmótinu á Akureyri árið 2021 var ég orðinn alveg ómögulegur, verkjaður, gat varla sofið og var ekki með neina matarlyst. Ég var byrjaður að léttast mikið á þessum tíma en náði mér síðan aðeins á strik en var áfram í læknarannsóknum. Þegar ég komst í rannsóknir hjá meltingarlækni í nóvember 2021 kom í ljós að ég var með svokallað „Chron´s“ sem er langtíma magasjúkdómur. Sama dag og ég fékk þessar fréttir þurfti ég að fara í sóttkví og greindist í kjölfarið með Covid. Næstu mánuði á eftir var ég mjög veikur og ég léttist líka mikið, fór í rúm 50 kg en ég er tæplega 180 cm hár. Ég var mjög slappur og kraftlaus á þessum tíma, svaf illa, var eiginlega alltaf illt í maganum og hafði lítið úthald. Sveifluhraðinn hrundi og á tímabili hafði ég bara úthald í að vippa og pútta. Þarna stóð ég frammi fyrir því að ákveða hvort ég ætlaði að láta sjúkdóminn stjórna mínu lífi eða hvort ég ætlaði að taka stjórnina sjálfur. Ég vissi að þetta væri sjúkdómur sem mun fylgja mér alla ævi en það er hægt að halda honum niðri með lyfjum. Ég velti því oft fyrir mér á þessum tíma hvort ég myndi geta spilað golf aftur þar sem ég var orðinn svo kraftlaus og erfitt að halda út á æfingum. Ég tók þá ákvörðun á þessum tímapunkti að ég myndi alls ekki gefast upp og ætlaði mér að vinna mig út úr þessu hægt og bítandi og vinnan hófst,“ segir Róbert Leó.

Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

Róbert var rúm 50 kíló þegar endurreisnin hófst, nánast búinn á því á líkama og sál og vissi að ströng vinna væri framundan til að ná fyrri heilsu. „Út af Chron´s þurfti ég að taka tíu töflur á dag og ég þurfti að hugsa mjög vel um hvað ég borðaði. Ég varð að taka allan unnin mat í burtu og gat bara borðað hreint fæði og það gekk mis vel að borða. Í ársbyrjun 2022 var ég búinn að missa nánast af hálfu æfingatímabilinu og þurfti að byggja mig upp frá grunni. Ég hugsaði með mér hvernig ég gæti náð sem mestu út úr hverjum degi fram í maí, þegar golftímabilið hófst. Ég byrjaði hægt og rólega að þyngjast og safna krafti og nýtti hverja stund til að æfa mig í golfi. Mér gekk ágætlega á mótum í fyrra en var ekki nógu stöðugur enda var það kannski ekki skrýtið því ég var ekki búinn að ná fullum bata. Ég ákvað samt að ég myndi ljúka öllum golfhringjum og golfmótum alveg sama hvernig heilsan var og hvort mér væri að ganga vel eða illa. Það má eiginlega segja að ég hafi staðið í stað heilsulega frá maí í fyrra fram til apríl á þessu ári en þá byrjaði mér að versna á ný. Þá var ákveðið að breyta lyfjagjöfinni og setja mig á líftæknilyf sem ég fæ reglulega og sú ákvörðun hefur gjörbreytt heilsunni minni. Ég hef þyngst jafnt og þétt og er allt annar í dag. Járnmagnið hefur þó flöktað og ég þarf núna einnig að fá járngjafir reglulega. Ég er farinn að læra meira inn á eigin líðan og er meira meðvitaður um þegar járnið er að lækka þar sem þreyta og kraftleysi kemur þá fram. Gott dæmi um það er Íslandsmót unglinga í höggleik sem fór fram í ágúst þar sem þurfti að spila 36 holur á einum degi vegna veðurs. Fyrri hringurinn gekk vel en síðan var orkan búin og úthaldið var ekki til staðar í seinni hringnum.“

Hélt að hann hefði ekki unnið

Róbert Leó tók þátt í hinu sterka Crecy Junior International, í París á dögunum. Segja má að það sé með ólíkindum að Róbert hafi náð að sigra á þessu sterka móti, einu og hálfi ári eftir að hafa verið sem veikastur. „Ég hef verið óstöðugur á mótum í ár svo það var frábært að ná að tengja saman þrjá góða daga í París. Ég leitaði mikið til reyndra kylfinga í sumar og er mjög þakklátur fyrir aðstoðina þeirra. Ég ákvað að mæta óhræddur inn í mótið, hugsa bara um að spila minn leik og vera ekki að spá í skori hjá hinum. Ég vissi ekki hver staðan var nákvæmlega allt mótið en ég vissi að ég væri í lokaráshóp. Meðspilarar mínir áttu góðan lokadag og mig grunaði ekki að ég væri að leiða mótið. Ég vissi ekki að ég hefði unnið fyrr en þeir tóku í höndina á mér að leik loknum og óskuðu mér til hamingju með sigurinn. 

Ég lærði mjög mikið af þessu móti, kannski helst að vera ekki að spá neitt í leik annarra. Ef maður einbeitir sér bara að sjálfum sér, að gera allt sem maður getur gert til að sveiflan sé góð og höggið þá líklega gott, mun maður spila vel. Ekkert endilega að skora vel, það nefnilega fylgist ekki alltaf að, að spila vel og skora vel, þannig er bara golfið.

Aðallærdómurinn sem ég tek úr veikindunum er að það er aldrei valkostur að gefast upp, alveg sama hversu mótlætið er mikið. Ég hef gengið í gegnum mikið síðustu ár, bæði líkamlega og andlega, og er ennþá í bataferli. Ég finn að ég á mikið inni, heilsan er orðin betri og ég er farinn að sjá hægt og rólega framfarir í golfinu. Nú er bara að klára framhaldsskólann en svo stefni ég á háskólagolfið í Bandaríkjunum,“ sagði Róbert Leó að lokum.

Róbert Leó með pabba sínum, Arnóri Gunnarssyni

Ungur Róbert Leó