Fréttir

Allt brjálað útaf brúnni
Miðvikudagur 8. febrúar 2023 kl. 01:01

Allt brjálað útaf brúnni

Breytingar sem gerðar hafa verið við aðkomu að einu þekktasta mannvirki á golfvelli í heiminum sjálfri Swilkan brúnni á 18. braut á Gamla velliinum í St. Andrews í Skotlandi hafa ekki fallið vel í kramið hjá kylfingum. Umferð um völlinn er gríðarlega mikil og illa hefur gengið hjá vallarstarfmönnum að halda snyrtilegu svæði í kringum þessa merku brú, sem nánast allir kylfingar sem leika völlinn ganga yfir. Ferðamennirnir sem leika völlinn láta þar að auki yfirleitt mynda sig á brúnni. 

Í vetur var ákveðið af St. Andrews Links Trust, rekstraraðila vallarins að leggja hellulagða stétt sitthvoru megin við brúnna þannig að grassvæði í kringum hana stæðust betur álagið.

Framkvæmdin hefur fengið mikla gagnrýni og þykir mörgum hún illa heppnuð en kylfingar á þessu svæði þekktir fyrir að vera frekar íhaldssamir og lítið fyrir breytingar. Svo rammt var kveðið að rekstraraðilinn sá sig knúinn til að senda út opinbera yfirlýsingu vegna framkvæmdarinnar. Í yfirlýsingunni kemur fram að ýmistlegt hafi verið reynt í gegnum árin til að tryggja að svæðið í kringum brúnna væri sem snyrtilegast en ekkert af þeim heppnast sómasamlega þ.m.t. lagning gervigrass, regluleg endursáning og tyrfing.

„Við gerum okkur grein fyrir þvi að jafn þekkt mannvirki og Swilcan brúin á sérstakan sess í hjörtum margra kylfinga og því snertir verkefnið marga í hjartastað. Við erum vissir um við munum finna bestu lausnina til að vernda einstakan sess Swilkan brúarinnar og umhverfis hennar, svo eins margir kylfingar og hægt er geti notið hennar árið um kring.“ segir m.a. í yfirlýsingu St. Andrews Links Trust.

Á myndinni hér að ofan má sjá fjóra félagsmenn Golfklúbbsins Kvíðis sem léku Gamla völlinn í St. Andrews í september síðastliðnum. Sigþór Kristinn Skúlason, Ragnar Aron Ragnarsson, Björgvin Ívar Baldursson og Kjartan Einarsson. Neðri myndin sýnir hina nýju hellulögðu stétt sem fellur illa í kramið hjá heimamönnum.