Örninn 2025
Örninn 2025

Fréttir

Andri Þór um miðjan hóp á Viking Challenge
Andri Þór Björnsson.
Fimmtudagur 17. ágúst 2017 kl. 13:07

Andri Þór um miðjan hóp á Viking Challenge

Andri Þór Björnsson og Ólafur Björn Loftsson luku nú fyrir hádegi við fyrsta hring á Viking Challenge mótinu, en mótið er hluti af Áskorendamótaröðinni. Birgir Leifur er einnig á meðal keppenda en hefur aðeins lokið við sex holur þegar þetta er skrifað.

Bæði Andri og Ólafur komust inn í mótið gengum úrtökumót sem haldið var fyrr í þessum mánuði. Hringinn í dag lék Andri Þór á 73 höggum og er hann um miðjan hóp. Ólafur náði sér ekki á strik í dag og kom í hús á 79 höggum.

Örninn 2025
Örninn 2025

Andri hóf leik á tíundu holu í dag og fékk einn fugl, einn skolla og restina pör á holum 10-18. Hann var því á parinu eftir níu holur. Á síðari níu holunum byrjaði Andri vel og var hann kominn tvö högg undir par þegar þrjár holur voru eftir. Þá fékk hann þrjá skolla í röð og endaði hann því hringinn á 73 höggum, eða einu höggi yfir pari. Hann er sem stendur jafn í 61. sæti en enn eiga margir eftir að ljúka leik.

Ólafur Björn hóf einnig leik á 10. holu. Hann átti mjög erfiðar fyrstu níu holur og var hann kominn sex högg yfir par eftir þær. Á síðari níu holunum fékk hann einn fugl, tvo skolla og restina pör. Hann kom því í hús á 79 höggum, eða sjö höggum yfir pari og er sem stendur jafn í 151. sæti.

Birgir Leifur Hafþórsson er einnig á meðal keppenda og hefur aðeins lokið við sex holur. Hann er á tveimur höggum yfir pari og er jafn í 97. sæti.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.


Ólafur Björn Loftsson.