Fréttir

Arna og Kristófer kylfingar ársins hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar
Arna Rún og Kristófer Karl. Mynd: golfmos.is
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 3. desember 2020 kl. 12:54

Arna og Kristófer kylfingar ársins hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar

Arna Rún Kristjánsdóttir og Kristófer Karl Karlsson eru kylfingar ársins hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar. Þetta kemur fram á heimasíðu klúbbsins. Kylfingar ársins hjá GM eru jafnframt fulltrúar klúbbsins í kjöri á íþróttakarli og íþróttakonu Mosfellsbæjar sem fer fram í janúar ár hvert.

Kvenkylfingur ársins hjá GM fyrir árið 2020 er Arna Rún Kristjánsdóttir. Arna Rún er 22 ára Mosfellingur og hefur verið meðlimur í GM allan sinn feril. Arna Rún leikur fyrir Grand Valley State University í bandaríska háskólagolfinu og er á sínu þriðja ári.

Arna lék gott golf í sumar en hún var meðal annars í 5. sæti á Íslandsmótinu í golfi sem fram fór á Hlíðavelli. Þar lék hún frábært golf og sýndi hvers megnug hún er. Arna var eins og undanfarin ár lykilmaður í kvennasveit GM sem hafnaði í 3. sæti í Íslandsmóti golfklúbba í efstu deild.

Karlkylfingur ársins hjá GM árið 2020 er Kristófer Karl Karlsson. Kristófer er einn af bestu kylfingum landsins og náði frábærum árangri á árinu 2020. Kristófer er fæddur árið 2001 og er því 19 ára gamall. Hann hefur verið í GM frá barnsaldri og Hlíðavöllur verið hans annað heimili.

Á árinu 2020 varð Kristófer meðal annars Íslandsmeistari í holukeppni og höggleik í flokki 19-21 árs, stigameistari í sama aldursflokki, klúbbmeistari GM og þá var hann valinn í A-landslið Íslands sem keppti á Evrópumóti karla í Hollandi. Kristófer lék lykilhlutverk í liði GM í Íslandsmóti golfklúbba en þar skilaði hann 4,5 stigum af 5 mögulegum.