Fréttir

Augusta National völlurinn ekki í sínu besta standi
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
sunnudaginn 27. september 2020 kl. 10:52

Augusta National völlurinn ekki í sínu besta standi

Undir venjulegum kringumstæðum er fyrsta risamót ársins Masters mótið og er það alltaf haldið í byrjun apríl. En vegna ástandsins í heiminum í vor var mótið fært og fer það nú fram dagana 12.-15. nóvember næstkomandi.

Að venju er leikið á Augusta National vellinum. Fyrir helgi birtust myndir af vellinum, nánar tiltekið af 15. og 16. flötunum, þar sem sést að völlurinn er ekki alveg í sínu besta ástandi. Áhorfendur eru vanir að sjá völlinn iðagrænan og í óaðfinnanlegu ástandi. Nú eru aftur á móti brautirnar brúnar og flatirnar virðast skellóttar.

Það er þó ástæða fyrir þessu öllu saman. Þar sem hitinn í Georgíufylki er mikill á sumrin vex bermudagras á vellinum. Grasið verður aftur á móti brúnt þegar fer að kólna og þurfa þá vallarstarfsmenn að sá ryegrasi í völlinn. Það ferli tekur ekki mikið meira en viku og þar sem það eru rúmlega sex vikur í mótið þurfa áhorfendur og keppendur ekki að örvænta því völlurinn verður orðinn iðagrænn áður en síðasta risamót ársins hefst.