Axel varði titilinn á Íslandsmótinu í höggleik
Atvinnukylfingurinn Axel Bóasson, GK, varði í dag titilinn á Íslandsmótinu í höggleik sem fór fram um helgina á Vestmannaeyjavelli. Axel lék jafnt og öruggt golf alla þrjá dagana og lauk leik á 12 höggum undir pari sem er jöfnun á mótsmeti í Íslandsmótinu sem Þórður Rafn setti árið 2015 á Garðavelli.
Fyrir lokahringinn var Axel með eins höggs forystu á Björn Óskar Guðjónsson úr GM og voru þeir, ásamt Haraldi Franklín Magnúsi, í baráttu um sigur allt til enda. Axel lék á fjórum höggum undir pari í dag og sigraði að lokum með tveggja högga mun.
Skorkort Axels í mótinu.
Þegar fimm holur voru eftir af lokahringnum voru þeir Björn Óskar og Axel jafnir á 9 höggum undir pari. Þá setti Axel hins vegar í mikinn gír og lék síðustu holurnar á þremur höggum undir pari. Á sama kafla lék Björn Óskar á höggi undir pari en það var ekki nóg til þess að sigra.
Haraldur Franklín endaði svo í þriðja sæti á 9 höggum undir pari, þremur höggum á eftir Axel.
Axel hefur nú sigrað þrisvar sinnum á Íslandsmótinu í höggleik en hann sigraði fyrst í Leirunni árið 2012 áður en hann sigraði aftur í fyrra á Hvaleyrarvelli.
Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.
Lokastaðan:
1. Axel Bóasson, GK, 65, 67, 70, 66
2. Björn Óskar Guðjónsson, GM, 66, 69, 68, 67
3. Haraldur Franklín Magnús, GR, 72, 62, 71, 66
4. Kristján Þór Einarsson, GM, 70, 69, 69, 68
4. Kristófer Orri Þórðarson, GKG, 73, 66, 69, 68
Björn Óskar Guðjónsson náði sínum besta árangri á Íslandsmóti í dag.
Haraldur Franklín Magnús endaði í þriðja sæti.