Brautarholt verður 18 holu golfvöllur árið 2025
Golfvöllurinn í Brautarholti á Kjalarnesi er einn af fallegri golfvöllum landsins en hann opnaði sem níu holu golfvöllur árið 2012 og varð tólf holur árið 2017. Vinna stendur yfir við að koma honum í átján holur og er gert ráð fyrir að hann opni þannig árið 2025.
Gunnar Páll Pálsson er formaður og framkvæmdastjóri Golfklúbbs Brautarholts. „Golfvöllurinn í Brautarholti var upprunanlega teiknaður sem átján holu völlur og við opnuðum fyrstu níu holurnar árið 2012 og stækkuðum hann svo í tólf holur fimm árum síðar. Í hitteðfyrra var ákveðið að ráðast í að klára hann sem átján holu völl og framkvæmdir hófust í fyrra og hafa haldið áfram í sumar. Við höldum okkur nokkurn veginn við upprunanlegu hönnunina sem Edwin Roald á heiðurinn af en síðan þá hafa tveir amerískir golfvallarhönnuðir komið að verkinu, þeir Michael Kelly og Tony Ristola.
Annars hefur sumarið verið fínt eftir að það fór að hlýna, við gátum ekki opnað fyrr en um miðjan maí eins og aðrir klúbbar á höfuðborgarsvæðinu en venjulega höfum við getað opnað alla vega viku fyrr en hinir klúbbarnir, veturinn var bara erfiður. Við fórum líka illa út úr saltstorminum í kringum 20. maí eins og aðrir vellir en Brautarholt er að verða kominn í sitt besta stand núna. Vonandi förum við síðan að sjá almennilega rigningu, það var mikill þurrkur í júlí. Klúbburinn okkar er með u.þ.b. 900 meðlimi í dag og við viljum fá fleiri meðlimi en við höfum sömuleiðis leyft golfklúbbnum Esju að hafa bækistöðvar sínar hjá okkur. Það verður gaman þegar völlurinn opnar sem átján holu völlur en við erum u.þ.b. búnir að sá í allar brautir, svo þarf þetta bara að fá að gróa og ef allt gengur að óskum, opnum við Brautarholt sem átján holu golfvöll árið 2025,“ sagði Gunnar Páll.
