Örninn 2025
Örninn 2025

Fréttir

Brynjar hjá Grastec tekur við Glanna
Fimmtudagur 23. febrúar 2012 kl. 15:25

Brynjar hjá Grastec tekur við Glanna

Stjórn Golfklúbbsins Glanna hefur tekið yfir rekstur golfvallarins Glanna. Búið er að ganga frá samningi við Brynjar Sæmundsson hjá Grastec um umsjón vallarins sumarið 2012. Brynjar er ekki ókunnur staðarháttum á Glanna því hann hefur verið til halds og trausts við undirbúning og rekstur vallarins undanfarin ár. Brynjar tekur alfarið við umsjón vallarins frá vorinu 2012.

Örninn 2025
Örninn 2025

Þetta er mjög skemmtilegur völlur. Hann er stuttur en getur verið mjög krefjandi. Glanni er frábæru landslagi og er í alfaraleið við þjóðveginn,“ sagði Brynjar í samtali við Kylfing.is. Völlurinn er staðsettur skammt frá Háskólanum á Bifröst.

Brynjar stofnaði fyrirtækið Grastec árið 2006 og sérhæfir fyrirtækið sig aðallega í innflutningi á áburði og fræjum. GrasTec veitir einnig ráðgjöf og hefur Brynjar tekið að sér verktakavinnu við hin ýmsu verkefni fyrir knattspyrnuvelli og golfklúbba landsins.

Brynjar mun hafa yfirumsjón með umhirðu á golfvellinum Glanna næsta sumar en mun ekki starfa á vellinum allt sumarið líkt og hefðbundinn vallarstjóri. „Við munum ráða vallarstarfsmann sem mun sjá um umhirðu á vellinum en ég bera ábyrgð og hafa yfirumsjón með vellinum,“ segir Brynjar sem tók þátt í uppbyggingunni á Glanna á sínum tíma er hann sáði í flatir vallarins.

Brynjar er menntaður í golfvallarumhirðu og stjórnun frá Elmwood College skólanum í Skotlandi og hefur mikla reynslu hér á landi. Hann var vallarstjóri á Jaðarsvelli í tvö ár (1995-96), starfaði hjá Leyni á Akranesi frá 1997 í tíu ár og var framkvæmdastjóri klúbbsins um tíma. Brynjar er frá Ólafsfirði og hóf feril sinn sem vallarstarfsmaður þar árið 1983 og var meðal annars formaður Golfklúbbs Ólafsfjarðar. Hann hefur einnig starfað að uppbyggingu golfvallar fyrir Golfklúbbinn Lund í Fnjóskadal og fylgt þeim velli eftir fyrstu árin.

Golfvöllurinn Glanni var formlega opnaður þann 1. júlí árið 2006 og var klúbburinn stofnaður sama ár. Völlurinn er hannaður af Hannesi Þorsteinssyni. Í tilkynningu frá Glanna er stefnt að opnun vallarins í lok maí ef tíðarfar verður hagstætt.


Brynjar Sæmundsson á Etihad Stadium, velli Manchester City í janúar 2012.