Prósjoppan mottumars
Prósjoppan mottumars

Fréttir

Casey búinn að jafna árangur Björn og Harrington
Paul Casey. Mynd: GettyImages.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 31. janúar 2021 kl. 20:53

Casey búinn að jafna árangur Björn og Harrington

Englendingurinn Paul Casey fagnaði sigri á Evrópumótaröðinni í dag í 15. skiptið á ferlinum. Casey stóð uppi sem sigurvegari á Omega Dubai Desert Classic mótinu og er nú búinn að jafna árangur Thomas Björn og Padraig Harrington á Evrópumótaröðinni sem báðir hafa sigrað á 15 mótum.

Fyrsti sigur Casey á Evrópumótaröðinni kom fyrir 20 árum árið 2001 en það var í 11. mótinu hans á ferlinum. Það árið varð hann nýliði ársins á mótaröðinni en hann átti eftir að verða kylfingur ársins árið 2006.

Casey komst hæst upp í 3. sæti á heimslista karla í golfi en er í dag kominn upp á meðal 20 efstu og á enn möguleika á að bæta þann árangur með góðri spilamennsku næstu mánuði.

Casey er orðinn einn sigursælasti kylfingur Evrópumótaraðarinnar frá upphafi eins og sést á listanum hér fyrir neðan. Ljóst er að hann mun ekki jafna efsta kylfinginn [Seve Ballesteros] en hann gæti þó komið sér aðeins ofar áður en ferillinn klárast.

Sigursælustu kylfingar Evrópumótaraðarinnar frá upphafi:

1. Seve Ballesteros, 50
2. Bernhard Langer, 42
3. Tiger Woods, 41
4. Colin Montgomerie, 31
5. Nick Faldo, 30
6. Ian Woosnam, 29
7. Ernie Els, 28
8. Lee Westwood, 25
9. José María Olazábal, 23
10. Miguel Angel Jimenez, Sam Torrance, 21
12. Mark James, Sandy Lyle, 18
14. Sergio Garcia, Mark McNulty, 16
16. Thomas Björn, Padraig Harrington, Paul Casey, 15