Fréttir

DeChambeau ætlar ekki að keppa fram að Masters
Bryson DeChambeau.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
miðvikudaginn 14. október 2020 kl. 20:04

DeChambeau ætlar ekki að keppa fram að Masters

Mikið hefur verið rætt um Bryson DeChambeau undanfarna mánuði eftir að hann mætti til leiks eftir Covidhlé nokkrum kílóunum þyngri og högglengri en fyrir hlé.

Það breyttist ekki um helgina þegar að hann lék á 59 höggum í Pro-Am mótinu á miðvikudaginn fyrir Shriners Hospitals for Children Open mótið.

Hann var svo á toppnum að loknum fyrsta hring eftir að leika á 62 höggum, eða níu höggum undir pari. Hann náði þó ekki að halda út því á laugardaginn lék fékk hann tvo skramba og tvo skolla á fimm holu kafla. Lokadaginn lék hann á 66 höggum og endaði mótið jafn í áttunda sætið.

Að loknu mótinu sagði DeChambeau að hann væri svekktur með mótið og að nú væri hann kominn í frí fram að Masters mótinu sem hefst fimmtudaginn 12. nóvember.

„Ósáttur með hvernig ég endaði mótið en ég veit hvað ég á inni þegar að ég er varla með B-leikinn minn og er að berjast um sigurinn.“

„Ég mun eyða næstu vikum í að bæta og finna úr úr mínum hlutum eins og alltaf. Ég ætla að vera eyða miklum tíma í ræktinni. Fyrstu vikuna mun ég ekki snerta golfkylfu, bara vera í ræktinni og reyna koma mér upp í 245 pund sem ég hef aldrei náð. Þannig að ég mun borða mikið næstu vikurnar.“

DeChambeau er ekki hættur að reyna að lengja sig þrátt fyrir að hafa slegið 43 teighögg lengra en 300 jarda, þar af voru einhver með 3-tré og blendingi, og af þessum 43 voru 18 sem fóru lengra en 350 jarda. Því næst á dagskrá er að auka hraðann enn meira og prófa 48 tommu dræver sem hann hefur verið að vinna að með sínu teymi.

„Ef við horfum á hraðaæfingar þá mun ég eflaust slá hátt í 1000 dræv næstu fjórar vikurnar til að auka hraðann. Það er hægt að bæta þetta enn frekar með réttum græjum og við erum að vinna í því hægt og bítandi.“