Fréttir

Evrópumótaröð karla: Fitzpatrick á toppnum | Stenson ekki langt undan
Matthew Fitzpatrick.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
föstudaginn 23. ágúst 2019 kl. 19:00

Evrópumótaröð karla: Fitzpatrick á toppnum | Stenson ekki langt undan

Annar dagur Scandinavian Invitational mótsins fór fram í dag og er það Englendingurinn Matthew Fitzpatrick sem er í forystu eftir daginn. Hann er tveimur höggum á undan heimamanninum Henrik Stenson og Ashun Wu. 

Fitzpatrick er búinn að leika gríðarlega vel fyrstu tvo hringi mótsins. Hann lék á 64 höggum í gær, þar sem hann fékk sex fugla og restina pör. Í dag fékk hann aftur sex fugla en tapaði aftur á móti einu höggi og kom því í hús á 65 höggum, eða fimm höggum undir pari. Samtals er Fitzpatrick á 11 höggum undir pari.

Stenson átti frábæran dag á vellinum en hann kom í hús á 62 höggum, eða átta höggum undir pari. Hann lék seinni níu holurnar á 29 höggum í dag. Wu átti einnig góðan dag en hann kom í hús á 64 höggum. Þeir eru samtals á níu höggum undir pari.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.