Fréttir

Evrópumótaröð karla: Ótrúlegur lokahring tryggði Otaegui sigurinn
Adrian Otaegui.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
sunnudaginn 18. október 2020 kl. 17:25

Evrópumótaröð karla: Ótrúlegur lokahring tryggði Otaegui sigurinn

Spánverjinn Adrian Otaegui lék ótrúlegt golf á lokadegi Skoska meistaramótsins sem kláraðist í dag á Evrópumótaröð karla. Hann vann upp fjögurra högga forystu Matt Wallace og gott betur en það því hann endaði mótið fjórum höggum á undan Wallace.

Otaegui byrjaði mótið með miklum látum þegar að hann lék fyrsta hringinn á 62 höggum, eða 10 höggum undir pari. Hann hafði svo hægt um sig á hringjum tvö og þrjú þar sem hann lék á 70 höggum, eða tveimur höggum undir pari. Þá var hann kominn fjórum höggum á eftir Wallace sem sat einn á toppnum á 18 höggum undir pari.

Á meðan Wallace náði aðeins að leika á höggi undir pari í dag lék Otaegui við hvern sinn fingur og kom hann í hús á 63 höggum, eða níu höggum undir pari. Hann fékk 10 fugla á hringnum í dag og tapaði aðeins einu höggi. 

Otaegui endaði mótið á samtals 23 höggum undir pari og fagnaði þar með sínum þriðja sigri á Evrópumótaröðinni.

Hérna má sjá lokastöðuna í mótinu.