Fréttir

Evrópumótaröð kvenna: Guðrún byrjaði á 80 höggum
Guðrún Brá Björgvinsdóttir.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 12. mars 2020 kl. 13:49

Evrópumótaröð kvenna: Guðrún byrjaði á 80 höggum

Keppni hófst í dag á Investec SA Open sem er hluti af Evrópumótaröð kvenna og fer fram í Suður-Afríku. Tveir íslenskir kylfingar eru á meðal keppenda í mótinu en það eru þær Guðrún Brá Björgvinsdóttir GK og Valdís Þóra Jónsdóttir GL.

Guðrún Brá hóf leik fyrr í dag og er búin með fyrsta hringinn. Hún lék á 80 höggum eða 8 höggum yfir pari og er þessa stundina í 128. sæti af 132 keppendum.

Alls fékk Guðrún tvo tvöfalda skolla, sex skolla og tvo fugla á hring dagsins en hér fyrir neðan er hægt að sjá skorkort hennar.


Skorkort Guðrúnar.

Ljóst er að Guðrún þarf að bæta sig töluvert á milli hringja ætli hún sér í gegnum niðurskurðinn að tveimur hringjum loknum. 

Valdís Þóra er enn úti á velli á fyrsta hring þegar fréttin er skrifuð og er á höggi yfir pari eftir 12 holur. Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.