Fréttir

Flott frammistaða hjá Haraldi - leikur í Sydney í næstu viku
Haraldur og hinn danski Sören félagi hans sem var kylfusveinn hjá honum í mótinu.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 26. nóvember 2023 kl. 12:19

Flott frammistaða hjá Haraldi - leikur í Sydney í næstu viku

Haraldur Franklín Magnús náði góðum árangri á Fortinet mótinu á DP mótaröðinni á Royal Queensland golfvellinum í Brisbane í Ástralíu. Þetta var fyrsta mót nýs tímabils 2023-2024 á DP mótaröðinni en Íslendingurinn fékk óvæntan þátttökurétt á því strax eftir lokaúrtökumótið á Spáni í síðustu viku. Haraldur lék á fimm höggum undir pari og endaði í 33.-40. sæti af rúmlega 150 þátttakendum.

„Þetta var heilt yfir mjög jákvætt og gaman að enda vel. Nú er bara að fylgja þessu eftir í næstu viku hér í Ástralíu,“ sagði Haraldur Franlín Magnús,

Hann mun fá fleiri tækifæri á DP mótaröðinni en annars vann hann sér fullan keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni, Challenge Tour.

Þetta mót var í Brisbane en næsta mót verður í höfuðborg Ástralíu, Sydney. „Ég fór frekar rólega af stað í mótinu en lék stöðugt golf og var undir pari á þremur hringjum af fjórum. Lokahringurinn -4 ýtti mér nokkuð upp töfluna. Aðstæður voru talsvert öðruvísi en ég er vanur og svo var ég aðeins að berjast við flensuskít en náði að gera það með verkjatöflum.“

Fyrir árangurinn vann okkar maður sér inn um 1,3 milljónir króna.

Haraldur fékk óvænt boð frá dönskum kylfingi um að vera kylfusveinn hjá sér í mótinu. Hann heitir Søren og er klúbbmeistari í golfklúbbi í Frederikshavn og ætlar að vera í Ástralíu í mánuð. „Hann hafði samband og spurði hvort hann mætti vera kylfusveinn sem ég og þáði. Það gekk bara vel að hafa nýlenduherra á pokanum,“ segir Haraldur sem fékk boð á mótið á laugardag í síðustu viku. Hann hugsaði sig ekki um tvisvar, bókaði strax flug og var kominn til Ástralíu snemma á þriðjudagsmorgni eftir að hafa flogið í gegnum Frankfurtog Singapore. „Ég fór bara beint út á golfvöll og fór æfingahring,“ segir Haddi og er spenntur fyrir næsta móti.

Ástralinn Min Woo Lee sigraði á mótinu á 20 undir pari. Jafn Haraldi á -5 var Skotinn Robert Macintyre en hann var í Ryderliði Evrópu í haust. Á næsta móti í Ástralíu eru nokkrir þekktir kylfingar meðal þátttakenda svo Haraldur er í góðum hópi.

Það var íslensk stemmning í fagnaðarlátunum hjá Min Woo Lee í lokin eins og sjá má: