Fréttir

Forsetabikarinn: Frábær byrjun Alþjóðaliðsins
Louis Oosthuizen fékk eitt af fjórum stigum Alþjóðaliðsins.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
fimmtudaginn 12. desember 2019 kl. 07:43

Forsetabikarinn: Frábær byrjun Alþjóðaliðsins

Fyrsta umferð Forsetabikarsins var leikinn í nótt en mótið er leikið á Royal Melbourne vellinum í Ástralíu. Það má segja að Alþjóðaliðið, sem hefur aðeins unnið keppnina eina sinni, hafi vart getað beðið um betri byrjun en liðið fékk fjóra vinninga á móti einum vinning bandaríska liðsins.

Leikinn var fjórbolti í nótt en þá leika allir kylfingar sínum bolta og telur betra skorið á hverri holu. Fyrsti leikurinn var búinn snemma en þeir Tiger Woods og Justin Thomas sýndu mátt sinn og megin og unnu þá Joaquin Niemann og Marc Leishman 4&3. Næstu þrír leikir voru mjög spennandi og fóru tveir þeirra alla leið á 18. holu og einn á 17. holu. Alþjóðaliðið hafði þó yfirhöndina í öllum leikjunum og féll þeim í vil. Í lokaleiknum fögnuðu þeir Louis Oosthuizen og Abraham Ancer afgerandi sigri 4&3 á móti Gary Woodland og Dustin Johnson.

Þrátt fyrir að vera komnir með fjögur stig nú þegar er enn langt í land þar sem 30 stig eru í boði í allri keppninni. Hvort liðið sem er fyrr til að fá 15,5 vinning fagnar sigri.

Önnur umferð keppninnar hefst rétt fyrir miðnætti í kvöld og verður þá leikinn fjórmenningur. Þá leika tveir saman í liði og skiptast þeir á að slá höggin.

Hér má sjá heimasíðu mótsins þar sem hægt er að fylgast með gangi mála.

Leikur 1: Joaquin Niemann / Marc Leishman 4&3 Tiger Woods / Justin Thomas
Leikur 2: Sungjae Im / Adam Hadwin 1 upp Patrick Cantlay / Xander Schauffele
Leikur 3: Byeong Hun An / Adam Scott 2&1 Tony Finau / Bryson DeChambeau
Leikur 4: C.T. Pan / Hideki Matsuyama 1 upp Patrick Reed / Webb Simpson
Leikur 5: Louis Oosthuizen / Abraham Ancer 4&3 Gary Woodland / Dustin Johnson.