Örninn 2025
Örninn 2025

Fréttir

Garcia hefur titil að verja á Omega Dubai Desert Classic
Sergio Garcia.
Þriðjudagur 23. janúar 2018 kl. 11:30

Garcia hefur titil að verja á Omega Dubai Desert Classic

Omega Dubai Desert Classic mótið fer fram í vikunni á Evrópumótaröðinni. Mótið hefst á fimmtudaginn og lýkur á sunnudaginn.

Nokkrir af bestu kylfingum mótaraðarinnar munu mæta til leiks í þetta skiptið og er Spánverjinn Sergio Garcia þeirra á meðal. Hann sigraði á mótinu í fyrra og stefnir væntanlega á að verða annar kylfingurinn í sögu mótsins til að verja titil sinn en Stephen Gallacher tókst það árin 2013 og 2014.

Örninn 2025
Örninn 2025

Omega Dubai Desert Classic fór fyrst fram árið 1989 og hafa 10 risameistarar sigrað á mótinu frá því ári. Þeirra á meðal eru Danny Willett (2016) og Sergio Garcia (2017) sem sigruðu einmitt á Masters mótinu á sama ári.

Í ár eru 9 risameistarar meðal keppenda en það eru þeir Darren Clarke, Ernie Els, Garcia, Trevor Immelman, Martin Kaymer, Rory McIlroy, Louis Oosthuizen, Henrik Stenson og Willett.

Eftir frábæra endurkomu um síðustu helgi er McIlroy talinn hvað líklegastur til árangurs um helgina. McIlroy hefur sigrað tvisvar sinnum á mótinu í 10 tilraunum og endað í einu af 10 efstu sætunum í síðustu sjö tilraunum.

Birgir Leifur Hafþórsson skráði sig til leiks í mótið en komst ekki að þar sem keppendahópur mótsins var of sterkur. Hann bíður því enn eftir sínu fyrsta móti á árinu á Evrópumótaröðinni.

Ísak Jasonarson
[email protected]