Örninn 2025
Örninn 2025

Fréttir

Golfklúbburinn Dalbúi - erum stöðugt að bæta völlinn
Séð yfir vallarstæði Golfklúbbsins Dalbúa.
Fimmtudagur 16. júlí 2015 kl. 07:00

Golfklúbburinn Dalbúi - erum stöðugt að bæta völlinn

Rétt austan við paradísina Laugarvatn, nánar tiltekið í Miðdal, liggur golfvöllurinn Miðdalsvöllur sem heimamenn hafa lagt rækt við síðastliðin 20 ár.
Reyndar er klúbburinn sjálfur, Dalbúi, aðeins eldri en fyrstu árin var 6 holu par 3 völlur fyrir neðan Héraðsskólann á Laugarvatni. Klúbburinn var stofnaður árið 1989 en fimm árum seinna fékk klúbburinn land hjá Félagi Bókagerðamanna í Miðdal til að setja niður 9 holu golfvöll. Nægt landsvæði er þó til fyrir stækkun upp í 18 holu völl og til eru teikningar frá Hannesi Þorsteinssyni.  Ekki hefur þó verið tekin nein ákvörðun um frekari stækkun á næstunni.
Kylfingur sló á þráðinn til Páls Þóris Ólafssonar formanns Golfklúbbsins Dalbúa til að forvitnast aðeins um starfsemi klúbbsins og fyrsta spurnig er alveg jafn klassísk og „how do you like Iceland“? Hvernig kom völlurinn undan vetri?
 
„Við höfum nú yfirleitt sloppið vel frá kalskemmdum en þetta árið fengu flatirnar sinn skerf af kali og illa gekk að fá fræ vegna verkfalla. Svo loksins þegar þau bárust, þá virðist sem að þau hafi verið eitthvað gölluð. Brautirnar eru aftur a móti orðnar góðar enda hefur lífrænum áburði verið dreift á þær síðustu ár úr nálægu búi,“ bætti Páll við.
Meðlimir eru rokkandi frá 120 til 140 á hverju ári en mesti fjöldinn kemur utan heimabyggðarinnar, þ.e.a.s. sumarbústaðareigendur en ekki eru nema ca. 15 heimamenn í klúbbnum.
„Við höfum verið að reyna að koma fleirum af stað í golfið hérna í kring en það er ekki alveg að gera sig. Við höfum til að mynda verið með kynningu fyrir yngri kynslóðina hér á svæðinu og einnig nýliðanámskeið ásamt því að fá PGA kennara endrum og sinnum. En það er helst að sumarhúsaeigendurnir nýti sér þetta frekar.“
 
Klúbburinn er ekki með þetta venjulega rekstrarform en sérstakir rekstraraðilar sjá um rekstur golfskálans og viðhald vallarins.
„Rekstraraðilar sjá alfarið um reksturinn, fá vallargjöldin og hluta af klúbbgjöldunum en á móti sjá þeir um alla vinnu í skála og viðhald á vellinum en klúbburinn á þó skálann.“
„Ferðamannastraumurinn er þó nokkur hér og byggist reksturinn að nokkrum hluta á honum.“
Klúbbfélagar hafa lagt mikla vinnu í að gera völlinn sem mest aðlaðandi, sérstaklega siðustu 10 ár og að sjálfsögðu allt í sjálfboðavinnu.
„Við höfum verið að planta mikið af trjám síðustu ár og ég myndi ætla að þau þau væru komin upp í 2.500 sem við höfum plantað síðustu 10 árin. Við vorum að planta um 300 birkitrjám frá Flúðum núna í sumar og 250 trjám í fyrra.“
„Einnig erum við að leggja lokahönd á tjörn hjá 9. flötinni sem gerir mikið fyrir völlinn.“
Meistaramót klúbbsins verður svo haldið næstu helgi en mótið er tveir dagar.
„Við pössum okkur að hafa mótið ekki á sama tíma og aðrir þar sem margir hjá okkur eru einnig meðlimir í öðrum klúbbum. Við viljum gefa þeim kost á að geta tekið þátt á báðum stöðum,“ sagði Páll að lokum.
Bygging tjarnarinnar við 9. flöt.
8. teigur á Miðdalsvelli.
Skáli þeirra Dalbúa.
3. flötinn á Dalbúa.
Örninn 2025
Örninn 2025