Prósjoppan
Prósjoppan

Fréttir

Guðmundur Ágúst á höggi yfir pari á fyrsta hring lokamótsins
Guðmundur Ágúst Kristjánsson. Mynd: Golfsupport.nl.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 19. nóvember 2020 kl. 12:09

Guðmundur Ágúst á höggi yfir pari á fyrsta hring lokamótsins

Guðmundur Ágúst Kristjánsson GR lék í dag fyrsta hringinn á lokamótinu á Áskorendamótaröðinni á einu höggi yfir pari og er þessa stundina jafn í 29. sæti af 45 keppendum. Mótið er haldið hjá T-Golf & Country golfklúbbnum í Majorka en þátttökurétt hafa 45 af 65 efstu kylfingunum á stigalista mótaraðarinnar.

Guðmundur hóf leik á 1. teig í morgun og var kominn tvö högg undir par eftir fjórar holur. Við tók slæmur kafli þar sem hann fékk þrjá skolla á næstu sex holum og var hann því á höggi yfir pari eftir 10 holur. Fuglar á 11. og 16. holu ásamt skolla á 12. og 14. holu gerðu það að verkum að Guðmundur kláraði hringinn á höggi yfir pari vallarins.


Skorkort Guðmundar.

Þegar fréttin er skrifuð er áætlað að Guðmundur detti niður um 2 sæti á peningalistanum miðað við þennan árangur en hann hóf vikuna í 46. sæti. Þetta á auðvitað eftir að breytast töluvert yfir helgina og verður ekki ljóst fyrr en allir keppendur hafa lokið leik á lokahringnum.

Í samtali við blaðamann Kylfings sagði Guðmundur fyrir mótið að einungis 5 efstu kylfingarnir á peningalistanum í lok tímabilsins á Áskorendamótaröðinni myndu fá takmarkaðan þátttökurétt á Evrópumótaröðinni en undanfarin ár hafa allir þeir sem komust inn í lokamótið fengið takmarkaðan þátttökurétt.

Alls eru leiknir fjórir hringir í mótinu og er enginn niðurskurður að þessu sinni. Lokahringurinn fer fram á sunnudaginn.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.