Fréttir

Guðmundur Ágúst lék lokahringinn á pari
Guðmundur Ágúst Kristjánsson. Ljósmynd: golfsupport.nl/Tyrone Winfield
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
sunnudaginn 31. júlí 2022 kl. 14:36

Guðmundur Ágúst lék lokahringinn á pari

Guðmundur Ágúst Kristjánsson úr GKG lauk leik á Irish Challenge fyrr í dag en mótið er hluti af Áskorendamótaröð Evrópu. Hann lék hringina fjóra á 287 höggum (74-69-72-72) eða samtals á 1 höggi undir pari The K Club vallarins.

Guðmundur Ágúst skiptist á að fá fugla og skolla þar til hann fékk tvo fugla á annars vegar 12. holu og hins vegar 14. holu. Tvöfaldur skolli jafnaði það stílbrot út og hringur upp á 72 högg eða par vallarins varð staðreynd. Guðmundur er sem stendur í 36.-39. sæti á mótinu en ekki hafa allir kylfingar enn lokið leik. Todd Clements er á miklu flugi og er langefstur á 20 höggum undir pari eftir 16 holur, sjö höggum á undan næstu mönnum. Það þarf mikið að gerast svo hann standi ekki uppi sem sigurvegari á mótinu.

Næsta mót á Áskorendamótaröðinni hefst í Finnlandi á fimmtudaginn kemur. Bæði Guðmundur Ágúst og Bjarki Pétursson eru skráðir til leiks en Haraldur Franklín Magnús og Andri Þór Björnsson sitja hjá.  

Staðan á mótinu