Fréttir

Guðmundur færist upp stigalistann
Guðmundur Ágúst Kristjánsson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 8. september 2019 kl. 18:08

Guðmundur færist upp stigalistann

Stigalisti Áskorendamótaraðarinnar hefur verið uppfærður eftir mót helgarinnar sem bar heitið Open de Betragne og fór fram í Frakklandi.

Tveir íslenskir kylfingar færast upp á listanum milli vikna en það eru þeir Birgir Leifur Hafþórsson og Guðmundur Ágúst Kristjánsson.

Guðmundur fer upp um 59 sæti milli vikna og situr nú í 136. sæti þrátt fyrir að hafa einungis verið með þátttökurétt á mótaröðinni frá því um miðjan júlí.

Eins og áður hefur komið fram á Kylfingi er Guðmundur með fullan þátttökurétt á mótaröðinni á næsta ári og getur því leikið nokkuð áhyggjulaus í næstu mótum. Hins vegar öðlast 15 efstu á stigalistanum í árslok þátttökurétt á Evrópumótaröðinni og því er tölfræðilegur möguleiki á að hann nái að komast inn á Evrópumótaröðina strax í haust.

Birgir Leifur er aftur á móti ekki með staðfestan þátttökurétt á næsta ári og hefði því eflaust viljað fá fleiri stig um helgina en hann fékk 1.560 stig og situr nú í 198. sæti stigalistans eftir að hafa verið án stiga fyrir mótið.

Eins og greint var frá fyrir helgi þarf Birgir helst að enda meðal 120 efstu í lok tímabils til þess að fá boð á nokkur mót á næsta ári en árið í ár hefur verið erfitt hjá honum þar sem hann hefur einungis komist inn í þrjú mót.

Framundan á Áskorendamótaröðinni er eitt af sterkustu mótum ársins, Opna portúgalska. Birgir og Guðmundur skráðu sig báðir til leiks en útlit er fyrir að einungis sá síðarnefndi komist inn.

Hér er hægt að sjá stigalistann á mótaröðinni.


Birgir Leifur Hafþórsson.