Örninn #galvin 2
Örninn #galvin 2

Fréttir

Guðrún Brá Íslandsmeistari þriðja árið í röð
Guðrún Brá Björgvinsdóttir.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 9. ágúst 2020 kl. 16:54

Guðrún Brá Íslandsmeistari þriðja árið í röð

Guðrún Brá Björgvinsdóttir GK varð í dag Íslandsmeistari kvenna í golfi þriðja árið í röð eftir umspil gegn Ragnhildi Kristinsdóttur GR um sigurinn.

Gríðarleg spenna einkenndi lokadag Íslandsmótsins í kvennaflokki en baráttan, sem byrjaði á milli þriggja kylfinga, endaði í miklu einvígi þeirra Ragnhildar og Guðrúnar Brár.

Þegar fimm holur voru eftir var Ragnhildur með fjögurra högga forystu á Guðrúnu Brá. Guðrún spilaði síðustu holurnar samtals á höggi undir pari á meðan Ragnhildur fékk þrjá skolla, þar á meðal á 18. holunni og því héldu þær í þriggja holu umspil um sigurinn.

Í umspilinu léku þær Guðrún og Ragnhildur 10., 11. og 18. holu. Fyrsta holan féll á pari en hlutirnir gerðust hratt á 11. holu. Ragnhildur missti um 3 metra pútt fyrir skolla á meðan Guðrún Brá átti tæpan metra fyrir pari. Guðrún Brá hins vegar missti par púttið og hleypti lífi í leikinn en þá missti Ragnhildur svipað pútt fyrir tvöföldum skolla.

Guðrún átti því tvö högg fyrir 18. holuna sem var síðasta hola umspilsins og lék hún öruggt golf og fagnaði sínum þriðja Íslandsmeistaratitli í röð. Guðrún Brá er fyrsti kylfingurinn í kvennaflokki til að sigra þrjú ár í röð frá því að Karen Sævarsdóttir afrekaði það árið 1991.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir GR varð þriðja á fjórum höggum yfir pari. Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir varð fjórða á 20 höggum yfir pari en lokahollið var í sérflokki í mótinu.

Lokastaðan í kvennaflokki á Íslandsmótinu í höggleik:

1. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, +1 (sigur eftir umspil)
2. Ragnhildur Kristinsdóttir, +1
3. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, +4
4. Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir, +20
5. Arna Rún Kristjánsdóttir, +21
6. Saga Traustadóttir, +22
7. Nína Björk Geirsdóttir, +24
8. Berglind Björnsdóttir, +25
9. Eva Karen Björnsdóttir, +26
9. Heiðrún Anna Hlynsdóttir, +26


Guðrún Brá missti þetta pútt fyrir sigri á 72. holu.


Ragnhildur kom sér í umspil með stuttu pútti á 72. holu.


Ólafía Þórunn endaði í þriðja sæti.