Fréttir

Guðrún Brá komst áfram í Sviss
Guðrún Brá Björgvinsdóttir.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 24. september 2020 kl. 14:46

Guðrún Brá komst áfram í Sviss

Guðrún Brá Björgvinsdóttir GK komst í dag í gegnum niðurskurðinn á Lavaux Ladies Open mótinu sem er hluti af LET Access mótaröðinni, þeirri næst sterkustu í Evrópu.

Guðrún Brá lék annan hringinn í Sviss á 5 höggum yfir pari og er samtals á því skori eftir tvo daga, jöfn í 44. sæti.

Hringur dagsins var nokkuð skrautlegur hjá Guðrúnu en skorkort hennar má sjá hér fyrir neðan. Hún hóf leik á 10. holu og var á 3 höggum yfir pari eftir sínar fyrri níu eftir þrefaldan skolla á 17. holu. Guðrún var svo enn á 3 höggum yfir pari þar til komið var að 6. holu þar sem hún fékk tvöfaldan skolla en hún kláraði daginn með fugli á 9. holu og niðurstaðan 77 högg.

Niðurskurðarlínan miðaðist við þá kylfinga sem léku á 6 höggum yfir pari og betur og því heldur Guðrún áfram og leikur lokahring mótsins á morgun, föstudag.

Pia Babnik frá Slóveníu er með nokkuð örugga forystu í mótinu fyrir lokahringinn á 12 höggum undir pari en hún lék á 7 höggum undir pari í dag. Babnik er fimm höggum á undan næsta kylfingi.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.