Prósjoppan
Prósjoppan

Fréttir

Guðrún í 29. sæti fyrir lokahringinn
Guðrún Brá Björgvinsdóttir.
Miðvikudagur 18. nóvember 2020 kl. 15:21

Guðrún í 29. sæti fyrir lokahringinn

Guðrún Brá Björgvinsdóttir GK er á tveimur höggum yfir pari eftir tvo hringi á Saudi Ladies Team International mótinu sem fer fram í Sádi Arabíu. Þetta er annað mótið í röð sem fer fram í landinu á Evrópumótaröð kvenna en leikið er á Royal Greens vellinum.

Keppnisfyrirkomulagið er með óhefðbundnu sniði en þrír atvinnukylfingar og einn áhugakylfingur leika saman í liði. Tvö bestu nettó skorin telja hjá hverju liði á hverri holu. Alls eru 36 lið í liðakeppninni en samhliða henni fer fram einstaklingskeppni hjá atvinnukylfingunum.

Guðrún Brá er í liðinu Team Lampert (Saudi Golf Fed3) og er hún þar með tveimur þýskum leikmönnum ásamt kylfingi frá Sádi Arabíu.

Guðrún Brá lék vel á fyrsta degi og kom inn á þremur höggum undir pari. Í dag lék hún ekki jafn vel en hún spilaði á 77 höggum eða fimm höggum yfir pari. Á hringnum fékk hún þrjá skolla og einn tvöfaldan skolla en mistókst að fá fugl.

Samtals er Guðrún því á 2 höggum yfir pari en það gerir það að verkum að hún byrjar lokahringinn á fimmtudaginn í 29. sæti af 111 kylfingum. Luna Sobron Galmes leiðir á 10 höggum undir pari.

Lið Guðrúnar er einnig í fínum málum en það er sem stendur í 9. sæti á 19 höggum undir pari.


Skorkort Guðrúnar til þessa.

Hér er hægt að sjá stöðuna í einstaklingskeppninni.

Hér er hægt að sjá stöðuna í liðakeppninni.