Hans Guðmunds: "Bara sólskinsdagar á ABC-mótaröðinni"
Handboltakempan fyrrverandi, Hans Guðmundsson, hefur ákveðið að fara af stað með nýja mótaröð, ABC-mótaröðina, eins og greint var frá í frétt Kylfings í gær. Hans og fyrirtæki hans Golf18, er að fara ótroðnar slóðir, en þetta verður í fyrsta sinn sem hinn almenni kylfingur fær tækifæri til að spreyta sig gegn kylfingum úr sama forgjafarflokki í opinni mótaröð. Í samræmi við mótaröðina verður einnig keppt í ABC-bikarnum, sem er bikarkeppni með útsláttarfyrirkomulagi eins og þekkist í öðrum íþróttum.
Mótaröðin er í samstarfi við ABC-barnahjálp á Íslandi og mun 500 krónur af hverju keppnisgjaldi renna óskipt til ABC. Þetta er hluti af stefnu mótaraðarinnar, Golf til góðs, en þar með geta kylfingar spilað golf á alvöru mótaröð og látið gott af sér leiða í kjölfarið.
Kylfingur.is tók Hans tali og spurði hann nánar út í þessa nýju mótaröð og bikarkeppni.
Hvenær kviknaði hugmyndin á þessari mótaröð?
Ég fór fljótlega að hugsa eftir að ég byrjaði í golfi, af hverju það væri ekki mótaröð fyrir okkur forgjafarhærri kylfinga. Hugmyndin um eina stóra bikarkeppni kom líka fljótt, og ég sem gamall handboltamaður hugsaði af hverju það væri ekki eins stór bikarkeppni eins og í hópíþróttunum?
Af hverju ákvaðstu að láta slag standa núna?
Ég missti vinnuna mína eins og svo margir. Ef maður gerir þetta ekki núna þá gerir maður þetta aldrei. Ég ákvað að láta slag standa og stend algjörlega og fell með þessu.
Hvernig kom til að þú fórst í samstarf við ABC-barnahjálp?
Ég hef alltaf haft áhuga á þessum málum, hef verið styrktaraðili tveggja barna í nokkur ár og finnst starfið sem þau eru að vinna frábært. Þessi börn sem við erum að reyna að hjálpa fá vonandi tækifæri til lífs og fannst heppilegt að blanda þessu tveimur áhugamálum saman.
Hverjar eru væntingar þínar fyrir þessari mótaröð og bikarkeppni?
Ég á von á því að kylfingar taki þessu fagnandi. Ég held að þetta sé keppnisfyrirkomulag sem margir vilja, kylfingar vilja spila alvöru golf. Þetta eru ódýr, alvöru golfmót sem stuðla jafnfram að góðu málefni. Ég held að ég sé fyrsti sjálfstæði mótshaldari í golfinu af þessari stærðargráðu á Íslandi. Verðlaunin verða heldur ekki af verri endanum ef að vel tekst til.
Hvað eruð þið að vonast eftir að geta styrkt mörg börn að mótaröð lokinni?
Ég er að vona að við náum að styrkja 25 börn í eitt ár, en hvert barn kostar um 50 þús. krónur á ári. Golf til góðs mun safna saman í einn sjóð frá öllum þátttökugjöldum og vonandi náum við þessum markmiðum.
Er markmiðið að mótaröðin festi sig í sessi á næstu árum?
Það er ekki verið að tjalda til einnar nætur. Golf18 og ABC-barnahjálp hafa skrifað undir fimm ára samning með endurnýjun á þriggja ára fresti til þriggja ára í viðbót, ef allt gengur að óskum. Þetta er mótaröð sem ég vonast til að verði í mörg ár og skapi sér sögu í golfsamfélaginu á Íslandi.
Það er enginn flokkur fyrir konur á þessari mótaröð, hverju sætir?
Konurnar munu fá þátttökurétt í ABC-bikarnum en ég ákvað að vera ekki með kvennaflokk á mótaröðinni. Ástæðan er sú að ef litið er á Kaupþingsmótaröðina, þá sést að mjög fáar konur er að keppa miðað við karlmenn. Ég er ekki viss um að kvennaflokkur myndi standa undir sér að þessu sinni. Ég ætla hins vegar að hafa allt opið og ef það eru nógu margar konur sem vilja skrá sig til leiks, þá er því ekkert til fyrirstöðu.
Hvar og hvenær er fyrsta mótið?
Fyrsta mótið er á golfvellinum í Hveragerði og verður hægt að leika frá því að völlurinn opnar og til 31. maí. Það er um mánuður í senn sem kylfingar hafa til að keppa á hverju móti og því verða bara sólskinsdagar á ABC-mótaröðinni.
Smella hér til að kynna sér mótaröðina betur.
Mynd/Kylfingur.is: Hans Guðmundsson, mótshaldari ABC-mótaraðarinnar, skýrir mótaröðina fyrir blaðamönnum í gær. Logi Bergmann Eiðsson, sem stýrir átakinu Golf til góðs, leggur við hlustir.