Fréttir

Haraldur Franklín á hamingjuskýi
Haraldur Franklín fagnar eftir glompuhögg beint í holu í Suður-Afríku í vor.
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
sunnudaginn 3. júlí 2022 kl. 22:10

Haraldur Franklín á hamingjuskýi

Atvinnukylfingnum, Haraldi Franklín Magnús og Kristjönu Arnarsdóttur, unnustu hans hefur fæðst stúlka

Haraldur Franklín Magnús úr GR fór nánast á hlaupum í gegnum lokastig úrtökumóts fyrir Opna mótið á dögunum en komst í tæka tíð aftur til Íslands til að verða viðstaddur fæðingu fyrsta barns þeirra Kristjönu Arnarsdóttur en stúlkan kom í heiminn á síðasta degi júnímánaðar.

Mótið fór fram á Englandi á þriðjudaginn var en stúlkan kom í heiminn tveimur dögum síðar.

Haraldur sagði í stuttu spjalli við kylfing.is að þau foreldrarnir séu að springa úr hamingju og skemmta sér vel við að kynnast stelpunni sinni.

„Sjálfur er ég að springa úr ást af stelpunum mínum og er fullur þakklætis. Það eru gríðarlega spennandi tímar framundan. Mig langar að nota tækifærið og færa öllum sem hjálpuðu okkur þúsund þakkir og þakka fagfólkinu sem við eigum. Ljósmæður og sjúkraliðar á Landspítalanum að ógleymdri mæðravernd. Þið eruð öll snillingar.“

Okkar maður ætlar að staldra við í nokkra daga hér heima og stefnir á að taka þátt í Meistaramóti GR ef allt gengur upp.

„Ég hlakka til að spila á meistaramótinu en svo er það bara Austurríki um miðjan mánuðinn. Við erum gríðarlega heppin með bakland. Litla stelpan á stóra fjölskyldu sem er gríðarlega spennt að hjálpa til vegna undarlegrar vinnudagskrár golfarans,“ sagði Haraldur Franklín að lokum.

Litla fjölskyldan stillir sér upp í klassíska heimferðarmyndatöku