Hee Kyung Seo sigraði á Kia Classic
Hee Kyung Seo frá Suður-Kóreu vann öruggan sigur á Kia Classic á LPGA mótaröðinni þar sem hún lauk leik á 12 höggum undir pari. Þetta var fyrsti sigur hennar á LPGA en hún hefur verið að standa sig afar vel í mótum í heimalandi sínu og unnið 11 mót síðustu tvö ár.
Næst var landa hennar Inbee Park sem lék á 6 undir pari, en Michelle Wie var jöfn henni í öðru sæti þar til að henni voru dæmd tvö víti fyrir að snerta með kylfuhaus í torfæru og endaði hún í sjötta sæti.
Lorena Ochoa átti enn einn slakan hring í gær og endaði í 52. sæti á þremur höggum yfir pari.
Seo getur nú ákveðið að hefja keppni á LPGA eða beðið með að nýta sér þátttökuréttinn þar til á næsta ári. Hún segist ekki hafa ákveðið neitt, en sé að íhuga sín mál vandlega.