Heiðrún Anna fékk þrjá fugla á síðustu sex holunum og sigraði
Mikil spenna á lokahring B59 Hotel mótsins
Heiðrún Anna Hlynsdóttir úr GOS sigraði á fyrsta móti GSÍ mótaraðarinnar, B59 Hotel mótinu á Akranesi í dag. Heiðrún lék samtals á 221 höggi (71-74-76) eða á 5 höggum yfir pari Garðavallar, fimm höggum betur en Kristín Sól Guðmundsdóttir úr GM. Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir úr GR hafnaði í þriðja sæti, einu höggi á eftir Kristínu Sól.
GSÍ mótaröðin samanstendur af sex mótum í sumar en þar á meðal eru Íslandsmótið í holukeppni og Íslandsmótið í golfi sem fram fer í Vestmannaeyjum í ágúst. Stigameistari GSÍ verður krýndur 20. ágúst að loknum Korpubikarnum.
Heiðrún Anna var með fimm högga forskot á Jóhönnu Leu og sex högga forskot á Kristínu Sól fyrir lokahringinn. Þrátt fyrir að Heiðrún hafi hafið lokahringinn með ágætis forskot myndaðist mikil spenna á hringnum. Eftir sex holur hafði hún tapað sex höggum á hringnum á meðan Jóhanna Lea hafði tapað einu höggi og Kristín Sól var á pari. Þannig voru þær allar efstar og jafnar á 7 höggum yfir pari þegar þær stigu upp á 7. teig. Þær töpuðu einu höggi til viðbótar hver á fyrri níu holunum svo allt stóð á jöfnu fyrir seinni níu holurnar.
Kristín Sól tók forystuna þegar hún fékk fugl á 10. braut á meðan Jóhanna Lea fékk par og Heiðrún Anna skolla. Heiðrún Anna fékk fugl á 11. braut en hinar fengu par. Þannig var Kristín Sól með eins höggs forskot á Heiðrúnu Önnu og Jóhönnu Leu þegar þær áttu sjö holur eftir. Allar fengu þær par á 12. braut en þá setti Heiðrún Anna í fluggírinn og fékk þrjá fugla á síðustu sex holunum á meðan Kristín Sól og Jóhanna Lea töpuðu þremur höggum á lokasprettinum hvor um sig. Heiðrún sigraði því með fimm högga mun.



Í stuttu spjalli við Kylfing að móti loknu sagði Heiðrún Anna að hún hafi heilt yfir spilað vel á mótinu.
„Já, ég náði að spila frekar ´solid´ golf. Ég var ekki að setja einhver löng pútt í eða neitt slíkt. Þetta var bara að mestu leyti gott. Ég byrjaði hringinn í dag ekki vel og setti mikla spennu í þetta en mér gekk vel á seinni níu svo þetta bjargaðist.“
Heiðrún Anna stundar nám við Arlington háskólann í Texas og leikur golf með skólaliðinu. Hvernig kann hún við sig í Bandaríkjunum og hvernig finnst henni að vera komin heim?
„Ég er mjög ánægð. Ég er að klára þriðja árið og golfið hefur að mestu gengið vel. Ég lenti m.a. í 2. sæti á Sun Belt Conference mótinu í apríl og var einu höggi frá efsta sætinu. En það er líka mjög gaman að koma heim og gaman að keppnistímabilið sé hafið hér heima. Ég tók mér smá frí á meðan ég var í prófum úti og svo í einhverja daga eftir að ég kom heim en síðan hef ég verið að æfa á fullu.“

Ertu ánægð með stöðuna á golfinu þínu?
„Já ég er það en auðvitað er maður alltaf að vinna í einhverjum hlutum leiksins. Mér finnst ég þurfa að bæta vippin og stutta spilið einna helst í dag. Stutta spilið var styrkleiki en eftir að ég fór að slá lengra og hitta fleiri flatir þá hefur það aðeins ryðgað, ef svo má segja.“
En hvað er svo framundan í golfinu hjá Heiðrúnu Önnu?
„Það er bara að æfa og spila hér heima, næst er það Leirumótið í byrjun júní. Ég hlakka til að halda áfram að spila á GSÍ mótaröðinni,“ sagði Heiðrún Anna Hlynsdóttir að lokum.
