Fréttir

Heimslisti karla: McIlroy upp fyrir Faldo
Rory McIlroy.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
mánudaginn 24. febrúar 2020 kl. 19:08

Heimslisti karla: McIlroy upp fyrir Faldo

Eins og greint var frá fyrr í dag er Patrick Reed kominn í 8. sæti heimslistans eftir sigurinn á heimsmótinu í Mexíkó í gær. 

Rory McIlroy er sem fyrr í efsta sætinu og hefur hann nú verið þar síðastliðnar 3 vikur. Samtals hefur McIlroy nú verið í efsta sætinu í 98 vikur og eru því aðeins tveir kylfingar sem hafa setið lengur í efsta sætinu en McIlroy. Fyrir helgi var McIlroy jafn Nick Faldo í þriðja sætinu með samtals 97 vikur og var því öruggt að hann næði þessu afreki.

Það verður þó þrautinni þyngri að komast upp fyrir Greg Norman sem situr í öðru sæti með samtals 331 viku. Hvað þá að komast upp fyrir Tiger Woods sem sat á sínum tíma í samtals 683 vikur í efsta sætinu.

Til að setja hlutina í samhengi þá þarf McIlroy að vera í efsta sætinu  næstu 585 vikurnar, eða næstu 11 árin og rúmlega það, til þess að jafna við Woods.

Kylfingar sem hafa setið lengst í efsta sætinu:

1. Tiger Woods - 683
2. Greg Norman - 331
3. Rory McIlroy - 98
4. Nick Faldo - 97
5. Dustin Johnson - 91
6. Sevel Ballesteros - 61
7. Luke Donald - 56
8. Jason Day - 51
9. Ian Woosnam - 50
10. Brooks Koepka - 47