Fréttir

Hovland sigraði á Abu Dhabi Hero Challenge
Viktor Hovland. Mynd: GettyImages.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
þriðjudaginn 14. janúar 2020 kl. 18:49

Hovland sigraði á Abu Dhabi Hero Challenge

Norðmaðurinn Viktor Hovland sigraði á fyrsta Hero Challenge mótinu á þessu ári sem fór fram í Abu Dhabi í dag í tilefni þess að Abu Dhabi HSBC meistaramótið fer fram í vikunni á Evrópumótaröð karla.

Slegið var inn á litla flöt í keppninni og hafði Hovland betur gegn nokkrum af bestu kylfingum heims. Ásamt Hovland kepptu þeir Brooks Koepka, Danny Villett, Louis Oosthuizen og Matt Fitzpatrick í mótinu.

„Ég get ekki kvartað, þetta var mjög góð byrjun á vikunni,“ sagði hinn 22 ára gamli Hovland eftir sigurinn. „Þetta var klikkaður staður, ég hef aldrei séð annað eins þannig þvílíkur staður til að ná sínum fyrsta „atvinnusigri“.

Ég sló nokkur góð högg með fleygjárnunum í kvöld og vonandi held ég því áfram í mótinu sjálfu. Að vinna Hero Challenge er frekar töff og ég hlakka til að spila í Abu Dhabi HSBC meistaramótinu eftir tvo daga.“

Hovland hafði betur gegn Brooks Koepka í undanúrslitunum og Louis Oosthuizen í úrslitaleiknum. Þetta er í 11. skiptið sem Hero Callenge mótið er haldið í undirbúningi fyrir mót á Evrópumótaröðinni.