Hraðara spil og golfkennsla
Ég hef oft verið að velta því fyrir mér hvort ekki sé hægt að gera eitthvað til að flýta leik á golfvöllum landsins og einnig gera okkar meðalkylfinga að betri kylfingum. Eitt sem klúbbar ættu að gera er að halda námskeið á hverju vori í sambandi við spilahraða. Það ætti að vera hægt að fá 4 manna holl til að spila 9 holur á rúmum 2 klst.
Ég hef verið viðloðinn golfskóla VITA-ferða og þar er lagt mikið uppúr umgengni og spilahraða. Það er gaman að segja frá því að skóli sem haldinn var á Valle del Este á Spáni fyrir nokkrum dögum stóð sig með eindæmum vel. Þessir einstaklingar, flestir byrjendur, voru að skila sér í hús 4 saman á rétt rúmum 2 klst. á krefjandi golfvelli. Ef þetta er hægt þá hlýtur þetta að vera hægt hérna heima líka, en það þarf að vekja athygli á þeim hlutum sem skipta sköpum í sambandi við hraðara spil.
Golfkennsla innifalin í árgjaldi
Ég ætla að varpa fram annari tillögu sem ég hef rætt við nokkra kylfinga í gegnum tíðina. Af hverju fær hinn almenni kylfingur ekki
golfkennslu með árgjaldinu? Hverjir fá golfkennslu með sínu árgjaldi? Afrekskylfingar, unglingar, börn og oft eldri kylfingar klúbbanna. Mér
finnst það hið besta mál að þessir kylfingar fái golfkennslu, en af hverju ekki hinir?
Mér datt í hug hvort ekki væri hægt að taka 2.000 kr. af hverju árgjaldi og borga golfkennara klúbbsins þá upphæð sem laun fyrir að kenna hinum almenna klúbbfélaga 1x30 mín. Tökum dæmi um 1.000 manna golfklúbb.
1.000 x 2.000 kr.= 2.000.000 kr. ( laun kennarans)
1.000 x 30 mín. = 500 klst. (vinnuskylda kennara)
Kylfingar gætu svo komið sér saman að mæta 2 saman og fá þá 2x30 mín kennslu. Mig grunar að það séu mjög margir kylfingar sem aldrei fara
til golfkennara og í mörgum tilfellum væri hægt að hjálpa þessum kylfingum mikið með 30 mín kennslu. Auðvitað þyrftu sumir að koma aftur í tíma ef villan er mjög tæknileg. Ef kennari og nemendur ná saman verða höggin beinni sem þýðir minni leit og hraðara spil.
Ef þessi 2 atriði yrðu tekin upp hjá golfklúbbum landsins er ég sannfærður um að spilahraði myndi batna, geta og ánægja kylfinga af
leiknum myndi aukast og síðast en ekki síst myndu fleiri kylfingar komast að á völlum landsins. Þetta er kannski ekki nein töfralausn, en allavega er ég sannfærður um að þetta myndi hjálpa til við að koma fleirum útá völl og gera leikinn hraðari.
Gleðilegt golfsumar
Siggi Palli