Fréttir

Húsatóftavöllur undir sjó eftir óveður
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 11. janúar 2022 kl. 17:19

Húsatóftavöllur undir sjó eftir óveður

Óveðrið síðustu daga skall ekki bara á höfninni í Grindavík því sjór gekk langt inn á golfvöll Grindvíkinga, Húsatóftavöll. Fimm brautir af átján eru fyrir neðan veg og mikið magn af sjó gekk yfir það svæði. Einnig kom talsvert af möl, grjóti og þangi með sjónum en þó í minna mæli en gerðist fyrir tveimur árum.

Helgi Dan Steinsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Grindavíkur, sagðist í samtali við Morgunblaðið hafa séð átta til tíu metra háar öldur ganga langt upp á land. Sjóvarnargarður sem liggur meðfram strandlengjunni og nær alla leið að Festarfjalli hefur rofnað á nokkrum stöðum á undanförnum árum, m.a. á köflum við golfvöllinn, og átti sjórinn því greiðan aðgang að vellinum.



Myndirnar að ofan voru teknar 6. janúar en drónamyndir Jóns Steinars Sæmundssonar í Grindavík hér að neðan þremur dögum síðar.

Hér má sjá 15. brautina eftir að sjórinn hafði runnið niður í jarðveginn.