Örninn 2025
Örninn 2025

Fréttir

Hverjir eru líklegir til sigurs á Símamótinu?
Gísli Sveinbergsson
Fimmtudagur 2. júní 2016 kl. 15:00

Hverjir eru líklegir til sigurs á Símamótinu?

Annað mót sumarsins á Eimskipsmótaröðinni, Símamótið, hefst á morgun en margir af bestu kylfingum landsins eru skráðir til leiks. Alls eru 104 kylfingar skráðir til leiks, þar af eru 83 karlar og 21 kona.

Fyrir Egils Gull mótið spáði Kylfingur einnig fyrir um úrslit og leit það vel út. Andra Þór Björnssyni var spáð sigri sem gerðist og Þórdís Geirsdóttir var valin sem Wild Card og hún stóð uppi sem sigurvegari. Að þessu sinn spáir Kylfingur eftirfarandi kylfingum góðum árangri:

Örninn 2025
Örninn 2025

Karlar:

Kristján Þór Einarsson: Sigraði á mótinu í fyrra. Verði hann ekki að minnsta kosti í topp-5 í mótinu hefur eitthvað mikið farið úrskeiðis. Gríðarlega góður kylfingur sem virðist hafa lítið fyrir hlutunum. Í þokkabót er Kristján á heimavelli en Hlíðavöllur virðist henta honum einstaklega vel.
Þórður Rafn Gissurarson: Ekki hægt að líta framhjá Íslandsmeistaranum í höggleik 2015. Hefur átt góð mót úti í vetur á Pro Golf mótaröðinni ásamt nokkrum lélegum. Verður gaman að sjá hann á íslenskum velli þar leyfilegt er að missa boltann til hægri og vinstri.
Andri Þór Björnsson: Sigraði á fyrsta móti ársins. Lék best á opnu móti á Hvaleyrarvelli fyrr í sumar. Vanmetinn kylfingur sem hefur sigrað fjórum sinnum á mótaröð þeirra bestu. Ekki hægt að veðja gegn honum.
Haraldur Franklín Magnús: Íslandsmeistari í höggleik og holukeppni árið 2012. Haraldur á 6 titla á mótaröðinni og er með lægstu forgjöf allra í mótinu ásamt Guðmundi Ágústi Kristjánssyni. Haraldur hefur leikið vel í Bandaríkjunum í vetur og á eftir að verða ofarlega um helgina.
Gísli Sveinbergsson: Á enn eftir að sigra á mótaröðinni. Með hverju mótinu sem líður styttist einfaldlega í það. Margfaldur Íslandsmeistari unglinga og sigraði auðvitað á Duke Of York. Þar að auki var hann valinn í Evrópulið unglinga í fyrra. Lék vel á sínu fyrsta ári í Bandaríkjunum og er til alls líklegur um helgina.

Wild Card: Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Rúnar Arnórsson

Konur:

Guðrún Brá Björgvinsdóttir: Einfaldlega besti kvenkylfingurinn í mótinu. Sést hvað best á forgjöfinni en hún er með -3,2 og er eini kvenkylfingurinn í mótinu með forgjöf undir núllinu. Guðrún lék vel í Bandaríkjunum í vetur og sigraði á þessu móti í fyrra. Á þrjá sigra á mótaröðinni.
Ragnhildur Kristinsdóttir: Margfaldur unglingameistari og hefur þar að auki sigrað á mótaröðinni. Endaði í fjórða sæti á Strandarvelli en á mikið inni.
Berglind Björnsdóttir: Leiddi eftir fyrsta hring á Hellu. Er nánast undantekningalaust ofarlega á Eimskipsmótaröðinni. Hefur svo sannarlega reynslu af því að sigra á Eimskipsmótaröðinni en hún hefur sigrað á tveimur mótum.
Karen Guðnadóttir: Var grátlega nálægt sínum fyrsta titli á mótaröðinni á Hellu en hún tapaði í bráðabana gegn Þórdísi Geirsdóttur. Staðráðin í því að sigra um helgina en eins og með nokkra aðra á þessum lista er hún fastagestur í toppbaráttunni hér heima.
Anna Sólveig Snorradóttir: Á einn sigur á mótaröðinni. Óútreiknanlegur kylfingur sem gæti þess vegna sigrað um helgina með yfirburðum. Að sama skapi gæti hún alveg eins verið um miðjan hóp. Ekki hægt að veðja gegn henni.

Wild Card: Saga Traustadóttir og Heiða Guðnadóttir


Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK.