Fréttir

Íslandsmótið: Guðmundur efstur fyrir lokahringinn í karlaflokki
Guðmundur Ágúst Kristjánsson lék vel í dag.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
laugardaginn 10. ágúst 2019 kl. 17:12

Íslandsmótið: Guðmundur efstur fyrir lokahringinn í karlaflokki

Guðmundur Ágúst Kristjánsson getur tryggt sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í höggleik á sunnudaginn þegar lokahringur mótsins fer fram.

Guðmundur lék í dag þriðja hring mótsins á þremur höggum undir pari og er samtals á fimm höggum undir pari, tveimur höggum á undan Andra Þór Björnssyni. Andri var lengi vel í forystu í dag en lék síðustu átta holurnar á fimm höggum yfir pari og byrjar því lokahringinn tveimur höggum á eftur Guðmundi.

Arnar Snær Hákonarson, Sigurður Arnar Garðarsson og Haraldur Franklín Magnús eru svo jafnir í þriðja sæti á tveimur höggum undir pari og má því búast við spennandi lokahring í Grafarholtinu.

Axel Bóasson, sem hefur titil að verja í mótinu, á ekki lengur raunhæfan möguleika á að verja titil sinn en hann er á fjórum höggum yfir pari eftir þrjá hringi. Útlitið var þó annað þegar fjórar holur voru eftir af þriðja hringnum en hann lék þær á sex höggum yfir pari eftir að hafa leikið fyrstu 14 holurnar á fjórum höggum undir pari.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

1. Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR 72-68-68 208 högg (-5)
2. Andri Þór Björnsson, GR 70-66-74 210 högg (-3)
3.-5. Arnar Snær Hákonarson, GR 74-68-69 211 högg (-2)
3.-5. Sigurður Arnar Garðarsson, GKG 73-71-67 211 högg (-2)
3.-5. Haraldur Franklín Magnús, GR 70-69-72 211 högg (-2)
6.-8. Ragnar Már Garðarsson, GKG 77-67-68 212 högg (-1)
6.-8. Ólafur Björn Loftsson, GKG 72-70-70 212 högg (-1)
6.-8. Böðvar Bragi Pálsson, GR 71-71-70 212 högg (-1)