Fréttir

Koepka kvartar enn á ný yfir hægum leik
Brooks Koepka.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
sunnudaginn 21. júlí 2019 kl. 21:00

Koepka kvartar enn á ný yfir hægum leik

Brooks Koepka hefur aldrei verið hræddur við það að segja sína skoðun á hlutunum, þá sérstaklega þegar kemur að leikhraða í golfi. Hann hefur meðal annars sagt að hann hafi vísvitandi spilað hægt til þess að fá dómara til að tímamæla hollið því þá fyrst spili menn á góðum hraða.

Koepka lék með J.B. Holmes í dag og er Holmes þekktur fyrir að vera einn hægasti spilarinn á mótaröðinni. Holmes átti vægast sagt slæman dag og tók það því sinn tíma að spila og var Koepka orðinn frekar pirraður. Á 12. flötunni sást svo til Koepka þar sem hann benti á „ímyndaða“ úrið á úlnliðnum sínum og horfði á dómarann sem fylgdi hollinu.

Eftir hringinn tjáði Koepka sig svo um málið og ljóst að hann er búinn að fá sig full saddan af hægum leik.

„Þegar það er komið að þér að slá og hanskinn er ekki kominn á, þá ferðu að hugsa um þetta. Þar liggur vandamálið. Það er ekki að hann spili hægt. Hann gerir bara ekki neitt fyrr en hann á að gera. Það er það sem er svo pirrandi. En hann er ekkert eini sem er svona.“